SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún J. Þorsteinsdóttir

Guðún Jóna Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 26. júlí árið 1922. Hún nam píanóleik og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1943. Að því loknu dvaldi hún við framhaldsnám í New York árin 1944-1945 og Kaupmannahöfn á árunum 1949-1952. Guðrún starfaði síðan við píanókennslu með hléum, m.a. við Tónlistarskólana í Reykjavík, Keflavík og í Kópavogi. Auk þessa samdi hún bæði lög og ljóð.

Guðrún var tvígift. Fyrri eiginmaður hennar var Einar B. Waage hljóðfæraleikari. Þau eignuðust tvær dætur. Guðrún og Einar skildu og árið 1950 giftist Guðrún Gunnari B. Guðmundssyni fyrrverandi hafnarstjóra í Reykjavík. Þau eignuðust fjögur börn. Gunnar lést árið 2002 og Guðrún árið eftir, 9. mars 2003.

Guðrún gaf út eina ljóðabók, Þankar á flugi árið 1988, og geymir hún 35 ljóð ásamt teikningum eftir Margréti Birgisdóttur. Hér má lesa eitt ljóðanna:

 

 

 

 

Skammdegismyrkur á þorra

Þegar myrkrið er mest

og magnleysið leggst yfir sálina,

sé ég fyrir mér lækinn,

sem liðast niður túnið.

Endalaust, endalaust

líður hann áfram.

Ég heyri margstrengja hljóminn

dökkna og lýsast.

leysast sundur í ýmsa tóna,

tafir við steina

verða að smá andköfum,

en svo er hann aftur frjáls

og flýtir sér niður

fjallshlíðina,

áfram, áfram.

Ég ligg í röku grasinu

og augu mín reika um himininn,

hina endalausu víðáttu.

Og handan fljótsins rís jökullinn

með hvíta fannbungu,

eins og lok

á fjötraðri mannssál.

Feyktu mér vindur

upp í hæðirnar,

svo ég finni svalann

leika um mig.

 

Heimild:

Margrét Birgisdóttir. 2003. Guðrún J. Þorsteinsdóttir. Minningargrein. Mbl. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/720210/


Ritaskrá

  • 1988 Þankar á flugi