SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Gunnhildur Hrólfsdóttir

Gunnhildur Hrólfsdóttir fæddist 1. nóvember 1947 í Vestmannaeyjum. Fljótlega að loknu gagnfræðaprófi hóf hún störf á barnaheimili. Gunnhildur missti heimili sitt í gosinu í Vestmannaeyjum 1973 og fluttist í kjölfarið búferlum til Reykjavíkur þar sem hún hefur búið síðan.

Gunnhildur hefur einkum skrifað fyrir börn og unglinga, bæði skáldsögur og leikrit. Hún hlaut fyrstu verðlaun fyrir söguna “Undir regnboganum” í samkeppni sem Ríkisútgáfa námsbóka efndi til á ári barnsins 1979. Bókin var gefin út hjá Ríkisútgáfu námsbóka ári síðar og hefur verið notuð sem lestrarbók í grunnskólum. Ástarsagan Vil, vil ekki kom út 1986. Gunnhildur á söguna Gulllykillinn í bókinni Ormagull sem kom út 1994 og innihélt 14 bestu smásögur úr smásagnasamkeppni Íslandsdeildar IBBY. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2001 fyrir bókina Sjáumst aftur . . . Greinar hafa birst eftir Gunnhildi í tímaritunum Veru og 19. júní. Hún hefur ennfremur haft umsjón með útvarpsþáttum um Vestmannaeyjar, tekið þátt í félagsmálum innan Rithöfundasambandsins og gegnt ritstjórnarstarfi blaðsins Börn og bækur sem gefið er út af IBBY samtökunum (International Board on Books for Young People).

Gunnhildur er gift og býr í Reykjavík.


Ritaskrá

  • 2005 Leyndarmál
  • 2004 Ránið
  • 2002 Allt annað líf
  • 2001 Sjáumst aftur . . .
  • 1998 Það sem enginn sér
  • 1996 Hér á reiki
  • 1995 Svarta nöglin
  • 1993 Komdu að kyssa
  • 1992 Óttinn læðist
  • 1991 Sara
  • 1990 Þegar stórt er spurt...
  • 1989 Þið hefðuð átt að trúa mér!
  • 1987 Spor í rétta átt
  • 1986 Vil, vil ekki
  • 1980 Undir regnboganum

Gunnhildur hefur einnig skrifað leikrit og fengið birtar smásögur eftir sig í safnritum.

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2005 - Alþjóðlegur heiðurslisti IBBY: Ránið
  • 2001 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Sjáumst aftur ...
  • 1997 - Viðurkenning IBBY fyrir framlag til barnamenningar
  • 1979 - Fyrstu verðlaun í samkeppni á vegum Ríkisútgáfu námsbóka á barnaári: Undir regnboganum