SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna Karin Júlíussen

Anna Karin Júlíussen fæddist í Reykjavík 1.maí árið 1946.

Foreldrar hennar voru Svafa Hildur Halldórsdóttir kjólameistari og Hjalmar Willy Juliussen sem var af norskum ættum og starfaði hjá sænska sendiráðinu í Reykjavík. Anna Karin ólst upp, ásamt Dóru systur sinni, í Vesturbænum og Noregi og gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Hún giftist Ingibergi Elíassyni og eignuðust þau tvo syni, Eirík Stein og Ragnar. Þau skildu eftir tíu ára hjónaband. Í dag er Anna Karin gift Guðmundi Kristjánssyni lögmanni.

Anna Karin lærði félagsráðgjöf í háskóla í Osló og starfaði við það fag í 36 ár. Þá bætti hún við sig námi í sáttamiðlun fyrir nokkrum árum og hef verið að vinna verkefni á þeim vettvangi. Anna Karin hefur starfað víða, m.a. hjá Rauða krossinum, Fangelsismálastofnun, Vestmannaeyjabæ, Reykjavíkurborg og Garðabæ.

Anna Karin byrjaði að skrifa sem barn en sýndi ekki ljóð sín fyrr en um fertugt. Fyrsta ljóðið sem birtist eftir hana var í Lesbók Morgunblaðsins árið 1986 en síðan hafa ljóð hennar birst víða í ýmsum samritum skálda.

Anna Karin gaf sjálf út tvær ljóðabækur, 22 árið 2005 og Þessa leið árið 2013. Þá gaf hún einnig út smásagnasafnið Bláar dyr árið 2013 ásamt fjórum öðrum konum og var það afrakstur námskeiða hjá Þorvaldi Þorsteinssyni rithöfundi. Að loknum námskeiðunum hófu konurnar samstarf sem leiddi til útgáfunnar. Þessar skáldkonur eru auk Önnu Karin, Ása Marín Hafsteinsdóttir, Jenný Kolsöe, Íris Ösp Ingjaldsdóttir og Helga Björk Ólafsdóttir. Þær eru enn í félagi sem kallar sig Blekbytturnar og hittast reglulega.

Árið 2011 sendi  Anna Karin smásöguna Þögnin í ritlistarsamkeppni APPEL-samtakanna í Biscarrosse í Frakklandi. Söguna þýddi Catherine Eyjólfsson (Le silence) og vann hún til fyrstu verðlauna þýddra smásagna.

Í ágúst 2021 var gefið út safnritið The dramatic mountain and other poems. Útgáfufyrirtækið Aracne í Róm gaf út safnritið með ljóðum 21 skálds, lífs og liðinna. Ritstjóri var Rosemarie Tsubaki. Þema ritsins var veðurfarsbreytingar í heiminum. Í bókinni eru fimm ljóð eftir Önnu Karin. Til stóð að halda mikið útgáfuhóf í Róm sumarið 2021, en vegna Covid- faraldursins, var það ekki hægt. Bókin kom því út á netinu og var einnig prentuð í örfáum eintökum. 
 
Í júní 2023 kom út  ljóðabókin Jarðskjálftafólkið og gaf Anna Karin bókina út sjálf. Fjalla ljóðin um  jarðhræringarnar í Grindavík fram að fyrsta gosinu, en Anna Karin bjó í Grindavík í átta ár og flutti þaðan sumarið 2022. Ljóðabókin er uppgjör skáldkonunnar við óttann.

Anna Karin er í Rithöfundasambandi Íslands og sömuleiðis hefur hún verið meðlimur í Ritlistarhópi Kópavogs frá upphafi. Hún hefur skrifað svo lengi sem hún man eftir sér og er hvergi nærri hætt.


Ritaskrá

  • 2023  Jarðskjálftafólkið
  • 2013  Bláar dyr (ásamt Ásu Marín Hafsteinsdóttur, Jennýju Kolsöe, Írisi Ösp Ingjaldsdóttur og Helgu Björk Ólafsdóttur)
  • 2013  Þessa leið
  • 2005  22

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2011 Fyrstu verðlaun fyrir þýdda smásöguí ritlistarsamkeppni APPEL samtakanna: Þögnin