Helga Möller
Helga Möller fæddist í Reykjavík 3. október 1950. Hún ólst upp í vesturbænum, yngst fjögurra systkina. Að loknu gagnfræðaprófi frá verslunardeild Hagaskóla tók við danskennaranám hér heima og í Kaupmannahöfn og útskrifaðist hún frá Carlsens Institut 1969. Helga hafði þá einnig stundað tungumálanám í Danmörku og Englandi og síðar nam hún við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Auk danskennarastarfsins var Helga meðal annars einkaritari hjá ISAL, vann við sýninga- og fyrirsætustörf heima og erlendis í fjölmörg ár og sýndi dans, meðal annars í mörgum skemmtiþáttum í sjónvarpi.
Lengst af hefur hún unnið við tímaritaútgáfu, bæði sem auglýsingastjóri og blaðamaður. Eitt sumar var hún og fréttamaður hjá Sjónvarpinu í afleysingum. Helga sat í stjórn foreldrafélags Listdansskóla Íslands um tíma og var í stjórn Módel 79. Hún er félagi í Rithöfundasambandi Íslands og Síung, félagi barnabókahöfunda.
Fyrsta bók Helgu, barnabókin Puntrófur og Pottormar, kom út árið 1992 en áður hafði hún samið, teiknað og lesið barnasögur fyrir Stundina okkar. Síðan hefur Helga sent frá sér þrjár aðrar barnabækur.
Árið 1977 eignaðist Helga einkadóttur sína, Katrínu Á. Johnson, dansara hjá Íslenska dansflokknum með fyrri eiginmanni sínum. Helga býr í Reykjavík og er gift Benedikt Geirssyni.
Ritaskrá
- 1999 Við enda regnbogans
- 1996 Prakkarakrakkar
- 1993 Leiksystur og labbakútar
- 1992 Puntrófur og pottormar