SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Þ. Smári

Helga Þorkelsdóttir tók sér ættarnafnið Smári þegar hún giftist skáldi, þýðanda og kennara sem hét Jakobi Jóh. Smári, í Kaupmannahöfn árið 1910. Helga var átti fjögur systkini og var fædd í Lykkju, Kjalarnesi 20. nóvember 1884 og lést 1974, södd lífdaga. Faðir hennar var Þorkell Ingjaldsson óðalsbóndi í Álfsnesi og móðir hennar hét Björg Sigurðardóttir, frænka Valdimars Briem sálmaskálds. 

„Helga var vinsæl meðal allra, sem kynntust henni. Hún var fjölhæf og smekkvís kona og lék allt í höndum hennar, sem hún snerti á. Hafa án efa búið með henni verulegir hæfileikar til áþreifanlegrar og sýnilegrar listar ef næg tækifæri hefðu gefizt til að þjálfa þá. En hún bjó einnig yfir hæfileikum til skáldskapar og ritlistar, enda gæti ég trúað, að Jakob hafi fremur uppörvað hana i því efni. Mun ýmislegt vera til eftir hana í handriti, en eitt smásagasafn eftir hana kom út 1939, sem nefnist „Hljóðlátir hugir". Er það eftirtektarvert, enda ýmsar frásagnirnar, m.a. af dularfullum tilvikum, byggðar á raunveruleika. Blærinn kannski nokkuð dapur, en fróðlegt, hversu hann minnir á, að á Íslandi ná miðaldirnar að ýmsu leyti fram á æskuár okkar, sem nú erum aldurhnigin“ segir í minningarorðum um hana í Morgunblaðinu.

Sögur og ljóð eftir hana birtust í Nýju kvennablaði og Eimreiðinni. Hún sendi frá sér eitt smásagnasafn sem fjallað var  um  í Eimreiðinni 1940.

Þar segir m.a.:

 „ — Þessar sjö smásögur, sem eru eftir nýjan, áður ókunnan höfund, virðast bera það með sér sumar, að þær séu til orðnar á hlaupum frá öðrum störfum, svo að höfundurinn hafi ekki gefið sér tóm til að endurrita þær eða ganga frá þeim til hlítar. Svo er t. d. um aðra og lengstu söguna, Stjúpbörnin. Efnið er tekið úr íslenzku sveitalífi: gamla sagan um vondu stjúpuna og illa meðferð hennar á stjúpbörnum sínum. Efnið er því merkilegt í sjálfu sér. En frásagnarhátturinn er laus i sér og sumstaðar ruglingslegur ... Þessi og fleiri smíðalýti hefði verið auðvelt að laga  með því að beita meiri vandvirkni...“

Og ritdómara (S. Sv.) finnst nóg komið af kvenrithöfundum: „Sögutækni þessa nýja kvenrithöfundar, sem nú bætist í hinn tiltölulega fjölmenna hóp þeirra, sem fyrir er, virðist vera svo að segja eingöngu óbrotinn, beinn frásagnarstill og fer sjaldan þar út yfir. Samtöl eru sárfá og dramatískar lýsingar einnig. Sumstaðar er komist ovenjulega að orði, svo sem í sögunni Eintal skrifstofnstjórans (bls. 110): «Hann var alveg gefinn upp á því " (þ. e. kvenfólkinu), i stað „hann hafði alveg gefist upp á því", eða „hann var alveg uppgefinn á því". Orðatiltækið i sögunni kannast ég ekki við. Ég hygg að mörgum sé forvitni á að kynnast þessum nýja höfundi, þvi þó að fæstar sögurnar skilji eftir djúp áhrif, þá er ýmislegt i þeim vel athugað og sumar þeirra dágóður skemtilestur.“

Ljóð eftir Helgu:

Í DAG 

Ef vinarorð þú átt í huga,

þú œttir að segja það strax.

Mundu, að mjótt er bilið

frá morgni til gólarlags.

Gærdagurinn er genginn,

hann gefur þér neikvætt svar.

Á morgun er komið mugguloft

og mikið skýjafar.

Ef bíður þín erfitt verk að vinna

þú verður að byrja í dag.

Hálfnað er verk þá hafið er,

hyggðu að þeim brag.

Á morgun koma mistur

og þoka, — mundu því,

að leynast oft í litlum

skugga lævís ský.

Bíddu því ekki boðanna,

en brostu þessa stund.

Þú veizt ei, hversu lánið leikur

lengi þér í mund.

Brátt renna þín spor í sævarsandinn

og sjást ei framar þar.

Leitaðu ekki lengi að því,

sem var.

(1962)


Ritaskrá

  • 1939 Hljóðlátir hugir