Henríetta frá Flatey
Henríetta frá Flatey er skáldanafn Jensínu Henríettu Hermannsdóttur. Hún fæddist 11. júlí 1886 í Flatey á Breiðafirði og ólst þar upp. Á búskaparárum sínum bjó hún lengst af í Otradal í Arnarfirði með eiginmanni sínum, Guðmundi Guðmundssyni, bónda og sjómanni. Þau eignuðust níu börn og Henríetta notaði rökkurstundirnar, þegar heimilið var komið í ró, til skrifta. Eina útgefna verk hennar ber því nafn með rentu, Rökkurstundir. Bókin hefur að geyma tvær stuttar skáldsögur: Lækningin – nútímasaga og Huldir harmar – saga frá nítjándu öld. Það er athyglisvert hversu ólíkar þessar tvær sögur eru, sú fyrrnefnda er skrifuð inn í formúlu afþreyingarsagna en sú síðarnefnda er frumleg saga um þrjár kynslóðir kvenna þar sem kvennasjónarmið kemur glöggt fram sem og sálfræðilegt innsæi. Í sögunni er hjónabandinu hafnað á afdráttarlausan hátt sem slæmum kosti fyrir konur og sjálfsfórn kvenna hafnað.
Henríetta lést árið 1955.
Sögur eftir Henríettu birtist einnig í tímaritunum Heimilisblaðinu og Ljósberanum. Huldir harmar var endurprentuð í safnritinu Sögur íslenskra kvenna 1879-1960.
Heimild
Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin. Ágrip af bókmenntasögu íslenskra kvenna 1879-1960.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. (1986)
Ritaskrá
- 1929 Rökkurstundir