SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna Þorsteinsdóttir frá Heydölum

Anna Þorsteinsdóttir (1915-2009) fæddist að Óseyri við Stöðvarfjörð þar sem hún ólst upp ásamt sex systkinum. 

Anna lauk barnaskólaprófi árið 1927, tólf ára að aldri, og prófi frá Húsmæðraskólanum á Hallormsstað 1934.

Anna var húsmóðir að Heydölum í Breiðdal frá 1947-1987,  aðstoðarkennari við húsmæðraskólann á Hallormsstað og við gestamóttöku þar á árunum 1934-1936, að undanskildum hluta af vetri sem hún starfaði sem vefnaðarkennari hjá Sambandi austfirskra kvenna og barnakennari víða á árunum 1939-1970 og skólastjóri á Stöðvarfirði 1965-1966. Hún lét mjög til sín taka í félags- og samfélagsmálum og sat í stjórnum og nefndum. 

Á gamlársdag 1944 giftist Anna Kristni Hóseasyni presti og prófasti í Heydölum. Þau áttu tvö kjörbörn, Hallbjörn og Guðríði.

Í minningargrein um Önnu segir: „Anna Þorsteinsdóttir er ein af þessum kraftmiklu konum sem vekur athygli viðstaddra fyrir orðfærni, líflega framkomu og létta lund. Hún er kona sem geislar af frásagnargleði og hefur frá mörgu að segja enda man hún tímana tvenna. Skólaganga Önnu hófst hjá afa hennar séra Guttormi Vigfússyni. Hjá honum lærði hún að lesa og skrifa en frekari tilsögn fékk hún heima eins og venja var á þeim tíma. Hugur Önnu hneigðist snemma til bókar en sá tími sem gafst til lestrar var lítill og segir hún svo frá: „Ég þótti víst heldur þung til vinnu, enda sveikst ég um þegar ég gat og notaði hverja stund til að lesa. Ég las fram eftir öllum nóttum og hafði bók í barminum þegar ég sat yfir lambánum“. Það tíðkaðist ekki á þeim tíma að mennta ungar stúlkur og sumarið 1930 var hún send í kaupavinnu. Um sumarið hafði hún gott kaup en naut sjálf ekki uppskerunnar því hún lánaði eldri bróður sínum launin svo að hann gæti farið í skóla. Það fór þó svo, að Anna lét til sín taka í menntamálum og átti kennslan hug hennar og hjarta í liðlega þrjátíu ár.

Anna bjó lengstum á Stöðvarfirði og á Heydölum í Breiðdal. Að Heydölum hélt hún myndarheimili með Kristni í tæplega fjörutíu ár. Á prestsheimilinu var afar gestkvæmt og þeim ekki í kot vísað er þangað rötuðu. Árið 1987 luku presthjónin vistinni á Heydölum og héldu til höfuðborgarinnar. Þegar þangað kom settist Anna ekki í helgan stein heldur tók til við skriftir. Af mikilli eljusemi hefur Anna safnað saman og skrifað niður þjóðlegan fróðleik. Hún hafði mikið yndi af því að segja frá öllu því sem viðkemur lifnaðarháttum fólks eins og þeir voru í hennar ungdæmi. Anna var óþreytandi að leita uppi og safna saman ljóðum eftir séra Guttorm, afa sinn ásamt því að skrifa æviþætti um foreldra sína, ömmu og afa. Margt af því sem hún hefur fest á blað er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni ... Anna hefur tekið saman mörg minningarbrot um samferðafólk sitt. Skrifin eru ómetanlegar heimildir um líf og störf fólks um síðustu aldamót og hafa sumar greinarnar birst í dagblöðum og tímaritum.

Anna var hagmælt mjög og skrifaði skemmtilegar sögur sem tengjast lífi hennar og minningum. Sumar þessara sagna hafa birst á prenti og fleiri á hún í fórum sínum sem bíða síns tíma. Hana munar heldur ekki um að setja saman stökur við ýmiss tækifæri eða senda kærum vinum ljóðabréf. Sumt af því sem hún hefur samið birtist í bókinni Raddir að austan-ljóð Austfirðinga (1999). Mörg af hennar bestu ljóðum eru ort til ástvina eða annarra sem hún hefur átt samleið með.

Anna sendi frá sér tvær bækur um ævina og sagði í viðtali 1988 þegar þau hjónin voru flutt til Reykjavíkur að hún hefði viljað gera margt öðruvísi í sínu ungdæmi.

 „Ánægjulegustu árin fyrir austan voru árin sem ég fékkst við að kenna. Ég reyndi einnig að leysa einangrunina með því að taka þátt í félagsstörfum. Var í stjórn Skógræktarfélagsins, formaður Slysavarnadeildarinnar um hríð og einnig kvenfélagsins, í stjórn Náttúruverndarfélags Austurlands og fleira slíkt. Það þótti mér mjög skemmtilegt.“ Við spyrjum Önnu hvernig fyrrverandi prestsfrú úr sveitinni kunni svo við að vera flutt til Reykjavíkur. „Ég nota orð Árna Þórarinssonar og segi að ég sé lifandis ósköp fegin,“ svarar hún um hæl. En hvað hefur hún fyrir stafni í þéttbýlinu? „Ég fer í sund á morgnana og sæki ýmiskonar námskeið, bókbandsnámskeið í fyrra og þýskunámskeið og ættfræðinámskeið í vetur. Svo fer ég út í Hvassaleiti og spila brids við aldraða. Hafði ekki marga til að spila við fyrir austan. Mig vantar ekki verkefnin. En mér finnst ég samt vera búin að missa af strætisvagninum, vera orðin of gömul til að gera það sem ég hefði viljað gera þegar ég var ung.“

Heimildir: minningagrein í Morgunblaðiu og viðtal í Morgunblaðinu.


Ritaskrá

  • 2004  Vísur Önnu
  • 2002  Sögur úr sveitinni