SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingibjörg Benediktsdóttir

Ingibjörg Benediktsdóttir er fædd 11. ágúst 1885 á Bergsstöðum í Hallárdal, Austur-Húnavatnssýslu, og bjó þar til tvítugsaldurs. Hún lauk prófi frá gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1909 og kenndi m.a. við kvennaskólann á Blönduósi og síðar barnaskólann í Reykjavík. Árið 1917 giftist hún Steinþóri Guðmundssyni. Eignuðust þau fjögur börn. Þau bjuggu á Akureyri til ársins 1933 en fluttust þá til Reykjavíkur. Þar lést Ingibjörg eftir langa vanheilsu 9. október 1953.

Ingibjörg tók virkan þátt í félagsmálum, m.a. góðtemplara. Hún var í Kvenréttindafélagi Íslands og um skeið í stjórn þess. Hún flutti erindi á fundum og í útvarpi og skrifaði smásögur, ljóð og ritgerðir sem birtust í blöðum og tímaritum. Hún var í tvö ár ritstjóri tímaritsins Nýjar kvöldvökur sem kom út á Akureyri. Hún gaf út tvær ljóðabækur, Frá afdal – til Aðalstrætis (1938) og Horft yfir sjónarsviðið (1946).

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

  • Helga Kress. 2001. „Ingibjörg Benediktsdóttir 1885-1953“, bls. 208. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

 

Myndin er fengin af vefsíðu um Jóhannes úr Kötlum og má þar einnig sjá minningarljóð hans um Ingibjörgu, sjá hér.


Ritaskrá

  • 1946 Horft yfir sjónarsviðið
  • 1938 Frá afdal - til Aðalstrætis