SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingunn Jónsdóttir frá Kornsá

Ingunn Jónsdóttir er fædd að Melum í Hrútafirði 30. júlí 1855. Foreldrar hennar voru Jón Jónsson, bóndi að Melum og Sigurlaug Jónsdóttir kona hans. Ingunn ólst upp á Melum og naut góðs af bókakosti heimilisins en hún var mjög bókelsk.

Þegar Ingunn var 21 árs gömul, árið 1876, flutti hún austur að Bjarnarnesi í Hornafirði til þess að standa fyrir búi Jóns bróður síns, sem þá var orðinn prestur þar. Í Hornafirði dvaldi Ingunn næstu fjögur árin, og telur hún þau hafa verið einhver beztu ár ævi sinnar. Eftir dvöl sína í Hornafirði hélt Ingunn til Danmerkur þar sem hún kynnti sér smjör- og ostagerð og dvaldi síðan um stund á  lýðháskólanum í Vilan í Svíþjóð. Alls mun hún hafa dvalið erlendis um það bil eins árs tíma.

Árið 1883 giftist Ingunn Birni Sigfússyni. Bjuggu þau fyrstu þrjú árin að Hofi í Vatnsdal í Húnavatnssýslu, en fluttu þá að Grímstungu í sömu sveit. Bjuggu þau þar í þrettán ár, en fluttu vorið 1899 að Kornsá í Vatnsdal þar sem þau bjuggu til ársins 1925, er þau brugðu búi.

Þá um haustið flutti Ingunn til Reykjavíkur til Sigríðar dóttur sinnar, þar sem hún svo dvaldi til dauðadags, en hún lézt 9. ágúst 1947, rúmlega 92 ára að aldri.

Sigurður Nordal mun hafa átt frumkvæðið að því að Ingunn skrifaði endurminningar sínar. Í aldarminningu Ingunnar, skrifar Svafa Þorleifsdóttir:

„Ingunn hafði sinn sérstaka hátt á með ritstörfin sem margt annað. Hún átti stundum bágt með svefn, einkum í skammdeginu. Nú tók hún upp þann sið, að leggja blað og blýant á borðið við rúmið sitt, er hún gekk til hvílu á kvöldin og notaði svo andvökustundirnar til ritstarfa. Á þennan hátt varð víst flest það til, er hún ritaði. Var eigi ætlun hennar í fyrstu að 'láta koma á prent það, sem hún skrásetti, heldur líklega fremur hitt, að láta það liggja sem handrit t. d. í Landskjalasafninu til fróðleiks fyrir eftirkomendurna. En fyrir atbeina dr. Sigurðar Nordal og fleiri góðra manna fór þó handritið til prentunar. Út kom svo Bókin mín á öndverðu ári 1926, og var höfundurinn þá á fyrsta árinu yfir sjötugt.“

Önnur bók Ingunnar, Minningar, komið út árið 1937, og hafði Ingunn þá tvo um áttrætt. Jafnvel eftir þann tíma skrifaði hún enn nokkuð og birtust þeir kaflar í bókinni Gömul kynni, ásamt efni úr fyrri bókum hennar. Kom bókin út árið 1946, ári áður en Ingunn dó.

Frásagnir eftir Ingunni birtust einnig í ýmsum blöðum og tímaritum, eins og sjá má ef nafn hennar er slegið inn í timarit.is

Heimildir:

Svafa Þorleifsdóttir, „Ingunn Jónsdóttir frá Kornsá. Aldarminning.“ 19. júní, 6. árg. 1956.


Ritaskrá

  • 1963      Draumar (kafli í Konur segja frá)
  • 1946      Gömul kynni
  • 1937      Minningar
  • 1926      Bókin mín