SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jakobína Johnson

Jakobína Sigurbjörnsdóttir, síðar Johnson, er fædd 24. október 1883 á Hólmavaði í Aðaldal, Suður-Þingeyjarsýslu. Sex ára að aldri fluttist hún með foreldrum sínum til Vesturheims og ólst Jakobína upp í Argyle, Manitoba. Hún lauk kennaraprófi 1904 og giftist sama ár Ísaki Jónssyni (Johnson). Bjuggu þau fyrst í Winnipeg, en síðan og lengst af í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Þau eignuðust sjö börn.

Jakobína birti ljóð í íslenskum og vestur-íslenskum blöðum og tímaritum frá 1913. Úrval ljóða hennar, Kertaljós, kom út í Reykjavík 1939 [2. pr.], og barnaljóðin Sá ég svani þremur árum síðar. Ljóðasafn hennar, Kertaljós, kom út í Reykjavík 1955. Einnig þýddi Jakobína íslenskar bókmenntir á ensku, m.a. leikrit eftir Jóhann Sigurjónsson, en einnig smásögur og ljóð. Ljóðaþýðingar hennar, Northern Lights, komu út árið 1959.

Jakobína var mjög virk í menningar- og félagsmálum Íslendinga í Vesturheimi. Hún vann ötullega að landkynningarstarfi og hélt fjölmarga fyrirlestra um íslenska menningu og bókmenntir. Á fimmtugsafmæli hennar árið 1933 var hún sæmd íslensku fálkaorðunni í viðurkenningarskyni fyrir störf sín, og árið 1935 buðu Ungmennafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands henni til Íslands. Kom hún tvisvar til Íslands eftir það, árin 1948 og 1959. Jakobína Johnson lést í Seattle 8. júlí 1977.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Jakobína Johnson 1883-1977“, bls. 198. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin af Jakobínu er sótt á vefsíðuna Ísmús, sjá hér.


Ritaskrá

  • 1955 Kertaljós: ljóðasafn
  • 1942 Sá ég svani
  • 1938 Kertaljós: úrvalsljóð

Þýðing

1959 Northern Lights; Icelandic poems