SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jakobína Þormóðsdóttir

Jakobína Þormóðsdóttir fæddist á Þórseyri í Kelduhverfi þann 17. júní 1962. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík þann 30. apríl 2002. Foreldrar hennar voru Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 26. ágúst 1942, og Þormóður Eggertsson, f. 14. júní 1937, d. 3. mars 1999. Systkini Jakobínu voru Guðmundur Ari, f. 31. júlí 1963, og Guðrún Hulda, f. 17. mars 1968, d. 15. júlí 1980. Foreldrar Jakobínu bjuggu í Keldukverfi í nokkur ár en fluttu síðan til Reykjavikur.

Þegar Jakobína var 7 ára greindist hún með Friedreich Ataxia sjúkdóminn sem gerði það að verkum að hún varð blind, heyrnarlaus og hreyfihömluð. Hún hafði þrátt fyrir það skýran huga, var afburðagreind með sterkt minni og þróaði hæfni með skynjun í fingrum sem gerði henni kleift að nema hljóð þannig að hún gat hlustað og átt í samræðum.

Fötlun Jakobínu aftraði henni ekki frá því að nýta sér þær gáfur sem hún fékk í vöggugjöf, en skáldagáfan var ein af þeim.

Ljóðabók hennar, Horfnir dagar, kom út 1990 þegar hún var 28 ára gömul. Af innsæi orti hún kvæði og ljóð sem urðu þeim sem hana þekktu bæði kær kveðskapur og veittu einnig innsýn í hennar frjóa hugarheim, þar sem manneskjan var í nánu sambandi við náttúruna og sjálfa sig.

Í sagnaarfi Íslendinga fann Jakobína áhugasvið sitt og las hún Íslendingasögurnar af áhuga og öðlaðist mikla þekkingu á þeim. Tók hún ásamt bróður sínum saman örnefnaskrá úr Íslendingasögunum sem var þó ekki gefin út.

Brautin langa liggur heim,
lengi verð ég að ganga.
Veldur álögum öllum þeim
Örlagagyðjan stranga.

(Jakobína Þormóðsdóttir)


Ritaskrá

  • 1990 Horfnir dagar