SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóhanna María Einarsdóttir

Jóhanna María Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1987 og hefur alla tíð síðan búið á Seltjarnarnesi. Foreldrar hennar heita Elsa Hafsteinsdóttir og Einar Axel Kristinsson. Systkini hennar heita Helga Kristín Einarsdóttir, Svanfríður Ósk Svansdóttir og Jón Ómar Svansson.

Jóhanna hefur unnið við þjónustustörf hjá Hagkaupum og Kaffitári, textavinnslu og blaðamennsku hjá DV og starfar nú sem leiðsögumaður hjá Reykjavik Sightseeing. Hún er með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands, BA í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MA í ritlist frá sama skóla. Einnig tók hún eins árs fornám í myndlist hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur eftir menntaskóla.

Fyrsta skáldverkið sem kom út eftir Jóhönnu og hún skrifar ein, heitir Pínulítil kenopsía. Varúð, hér leynast krókódílar. Verkið er nýstárleg bókmenntatilraun þar sem birtist karnívalískur og póstmódernískur sambræðingur af ýmiskonar ritformum. Verkið ávarpar lesanda, á í samræðum við hann, lýgur að honum, sniðgengur dæmisögu um lágvaxinn gíraffa og segir frá ótrúlegri kynlífsathöfn. Í eftirmála verksins hefur höfundur sett sig í bókmenntafræðilegan gír þar sem verkið er greint og skoðað með augum hnyttna bókmenntafræðingsins Jóhönnu Maríu.

Jóhanna María hefur auk þessa birt ljóð og ýmsa texta aðra í tímaritum og á menningarvefjum.


Ritaskrá

  • 2017 Pínulítil kenopsía. Varúð, hér leynast krókódílar.