SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóhanna H. Sveinsdóttir

Jóhanna fæddist í Reykjavík 25. júní 1951. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1971 og tók próf í ensku og latínu frá Háskóla Íslands vorið 1972. Hún lauk 2. stigi í frönsku fyrir útlendinga, Diplome d'études francaises, í Montpellier í febrúar 1973. Jóhanna lauk BA prófi frá HÍ með íslensku sem aðalgrein og latínu og ensku sem aukagreinar árið 1979. Þá lauk hún fyrri hluta doktorsprófs í bókmenntafræði við Université de Provence árið 1980.

Jóhanna lagði stund á íslenskukennslu við Menntaskólana við Tjörnina, á Ísafirði og við Hamrahlíð með hléum á árunum 1972-1991. Hún var blaðamaður um árabil og annaðist prófarkalestur fyrir ýmsa aðila um langt skeið. Eftir Jóhönnu liggja  viðtalsbækur og matreiðslubækur, bók um breytingaskeið kvenna, ljóðabækur auk þess sem hún þýddi skáldsögur, ljóð, barnabækur og unglingabækur úr frönsku og ensku. Þá bjó Jóhanna til útgáfu ýmis bókmenntaverk, gömul og ný, sem ætluð eru til kennslu í íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Um skeið sá hún um bókmenntagagnrýni fyrir Ríkisútvarpið og DV, Tímarit Máls og menningar og Helgarpóstinn. Jóhanna skrifaði einnig fjölda greina fyrir blöð og tímarit og annaðist þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið.

Eftirlætisviðfangsefni Jóhönnu í fjölmiðlum var jafnan matargerð og skrifaði hún undir nafninu Matkrákan. Á síðustu misserum ævi sinnar sökkti Jóhanna sér æ meir í heimspeki og ljóðagerð. Jóhanna bjó lengst af í Reykjavík. Um skeið dvaldi hún á Ítalíu og nokkra vetur í Frakklandi á námsárum sínum. Frá því í byrjun árs 1993 var hún búsett í París. Jóhanna lést í hörmulegu slysi á Fagurey í Frakklandi (Belle-Ile-en Mer, úti fyrir strönd Bretagneskaga) 8. maí 1995.

Mynd: Vera, 5.tölublað, 01.11.1995, bls 42


Ritaskrá

 • 2000 Hratt og bítandi. Matreiðslubók og margt fleira
 • 1996 Spegill undir fjögur augu (ljóð)
 • 1994 Guð og mamma hans (ljóð)
 • 1987 Á besta aldri. Í samvinnu við Þuríði Pálsdóttur
 • 1985 Íslenskir elskhugar: viðtöl við átján karlmenn
 • 1982 Matur er mannsins megin. Einfaldar uppskriftir, fróðleikur og skemmtan í dagsins önn

Þýðingar

 • 1988 Draugahúsið eftir Zilpha Keatley Snyder
 • 1983 Ída er einmana eftir Maud Reuterswärd
 • 1982 Svona er hún Ída eftir Maud Reuterswärd
 • 1979 Vorið þegar mest gekk á eftir Gunnel Beckman
 • 1978 Þrjár vikur framyfir eftir Gunnel Beckman
 • 1975 Emma spjarar sig eftir Noel Streatfield
 • 1974 Emmusystur eftir Noel Streatfield
 • 1973 Emma eftir Noel Streatfield
 • 1973 Montserrat eftir Emmanuel Roblésík