SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er fædd árið 1994.

Karítas er doktorsnemi í ritlist við University of East Anglia í Bretlandi. Áður lauk hún MA-gráðu í ritlist og BA-gráðu í íslensku með japönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Hún hefur búið í lengri og skemmri tíma í Danmörku, Bandaríkjunum, Japan, Bretlandi og á Spáni og hefur því öðlast töluverða reynslu af tungumálanámi. Karítas hefur jafnframt komið að kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands og íslensku sem erlends máls við Waseda háskóla í Tókýó.

Fyrsta bók Karítasar er örsagnasafnið Árstíðir – sögur á einföldu máli sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi í janúar 2020. Verkið samanstendur af 101 örsögu sem fjalla um siði og venjur á Íslandi. Safnið er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem sögurnar eru allar skrifaðar sérstaklega fyrir lesendur með íslensku sem annað mál (á getustigi A2 til B1 samkvæmt Evrópurammanum). Bókin hefur notið mikilla vinsælda og verið kennd á ýmsum skólastigum á Íslandi sem og erlendis.

2022 kom Dagatal sem er sjálfstætt framhald af Árstíðum. Smásagnasafnið Það er alltaf eitthvað inniheldur þrjár sögur eftir Karítas. Auk þess hafa sögur eftir hana birst í tímaritum á borð við Tímarit máls og menningar.

 


Ritaskrá

  • 2023  Árstíðir - verkefnabók
  • 2022  Dagatal - sögur á einföldu máli
  • 2020  Árstíðir – sögur á einföldu máli
  • 2019  Það er alltaf eitthvað (ásamt ellefu öðrum höfundum)

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2022  Viðurkenning Íslenskrar málnefndar fyrir sögur á einföldu máli
  • 2020  Styrkur úr Jafnréttissjóði Íslands