SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kristjana Emilía Guðmundsdóttir

Kristjana Emilía fæddist í Stykkishólmi 23. apríl 1939 en ólst upp á Dröngum á Skógarströnd. Foreldrar hennar voru Guðmundur Ólafsson landpóstur og Valborg Vestfjörð Emilsdóttir ljóðsmóðir.

Kristjana lauk landsprófi og námi í bókbandi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hún og maður hennar, Jón Hilberg Sigurðsson, eignuðust sex börn. Þau bjuggu á Dröngum til 1968 en fluttu þá í Kópavog. Hún vann við bókband um skeið en lengst af starfaði hún hjá Bókasafni Kópavogs uns hún flutti á Akranes.

Kristjana sendi frá sér fimm ljóðabækur og ljóð hennar hafa birst í safnritum, blöðum og tímaritum.

Jenna Jensdóttir fjallaði um bók hennar Ljóðblik í Morgunblaðinu 1993 og seinna um Ljóðárur í Morgunblaðinu 1998. Jennu þótti órímuðu ljóðin betri og segir m.a. eftirfarandi: „Það er fáséð að ljóðabækur séu jafn veglega útgefnar og Ljóðblik. Himinblár, vandaður pappír er flötur ljóða og mynda. Á blámann slær fölvum dularblæ á hverri síðu og sveipar skrautletur ljóðanna fjarhrifum. Flest ljóðin eru byggð á heimspekilegum ígrundunum með trúarlegu ívafi. Hinir ýmsu þræðir tilveru og lífsferli eru brotnir upp í myndrænum ljóðum sem einkennast af góðvild og ákveðnum lífsskilningi.“

Engin rýni fannst um Ljóðastrengi (2014).

Mynd: Skessuhorn


Ritaskrá

  • 2014  Ljóðastrengir
  • 1998  Ljóðárur
  • 1995  Ljóðgeislar
  • 1993  Ljóðblik
  • 1982  Ljóðnálar