SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Lovísa María Sigurgeirsdóttir

Lovísa María Sigurgeirsdóttir (Lóa Maja) fæddist í Hrísey þann 21. ágúst árið 1957. Foreldrar hennar eru Guðlaug Elsa Jónsdóttir og Sigurgeir Stefán Júlíusson. Árið 1979 giftist hún Einari Arngrímssyni frá Dalvík og eignuðust þau fjögur börn. Lovísa María býr á Dalvík.

Lovísa María hefur mest unnið í skóla og við bókhald og lauk hún námi á skrifstofubraut I við Menntaskólann í Kópavogi. Hún hafði áður lokið nokkrum námskeiðum í bókhaldi og skrifstofutækninámi og námskeiði í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni rithöfundi. Lovísa María lauk einnig námi í Borgarholtsskóla fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum og vinnur nú sem stuðningsfulltrúi og leiðbeinandi í leiklist við Dalvíkurskóla.

Lovísa María hefur fengist við ljóðagerð frá barnsaldri og hefur hún verið beðin um að gera ljóð fyrir aðra. Þau eru ýmist flutt lesin eða sungin við hin og þessi tækifæri, s.s. afmæli, brúðkaup, fermingar, skírnir og fleira. Eins hefur hún skrifað nokkur handrit fyrir börn og fullorðna og leikstýrt einhverjum þeirra. Hún lék einnig með Leikfélagi Dalvíkur til nokkurra ára. Þá hefur Lovísa María  einnig skrifað greinar í tímaritið Súlur og samið ljóð sem liggja stillt og góð í skúffunni.

Lovísa María skrifaði bókina Ég skal vera dugleg um þá reynslu sína að þurfa að dvelja í fjóra mánuði á sjúkrahúsi aðeins fimm ára gömul. Fékk hún systur sína, Guðbjörgu, til að myndskreyta bókina sem kom út árið 2009. Þá fékk Lovísa María þá hugmynd að gera barnabók í bundnu máli sem líka væri hægt að syngja. Innblásturinn var sá að hún eignaðist sitt fyrsta barnabarn.


Ritaskrá

  • 2014  Mía kemur í heiminn. Myndskreyting: Guðný Hrönn
  • 2009  Ég skal vera dugleg. Myndskreyting: Guðbjörg Sigurgeirsdóttir