SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Margrét Pálmadóttir frá Sauðafelli

Margrét Pálmadóttir fæddist 6. maí 1866 á Svalbarða í Miðdölum, næstelst fjögurra systkina. Ekki er margt vitað um Margréti og heimildir um hana sárafáar en nokkur af bréfum til hennar hafa varðveist en færri frá henni. Hún hlaut enga formlega mennntun en talið er að hún hafi búið við gott atlæti hjá foreldrum sínum sem þóttu sómahjón. Ætla má að hún hafi verið blíð og viðkvæm kona, hún var trúuð og var mikið leitað til hennar vegna ýmissa mála. Hún giftist Finnboga Finnssyni árið 1890, hann var skörungur mikill, frumkvöðull í jarðrækt, geldingameistari og skeifnasmiður. Þau bjuggu fyrst á Háafelli, síðan á Svínhóli en keyptu Sauðafell í Dölum árið 1918. Börn áttu þau mörg en af fyrstu sex lifðu aðeins tvö.

Margrét skrifaði ljóðabréf, orti ljóð og stökur, barnagælur, trúar- og minningarljóð. Hún orti um raunir hversdagsins, næsta umhverfi sitt, dýrin á bænum, en einkum sér til hugarhægðar í sorg og söknuði eftir látnum börnum sínum. Ljóð hennar lýsa djúpri trú og trausti á almættið og eru merk heimild um líf og störf konu sem fann tilfinningum sínum farveg í ljóðagerð. Hún þekkti vel til þeirrar aldagömlu skáldskaparhefðar sem þjóðin nærðist á. Stökur hennar eru ákaflega vel gerðar undir ýmsum bragarháttum. Ljóðmál hennar er einfalt og auðskilið, rím og stuðlar falla á rétta staði fyrirhafnarlaust. Í formála ljóðasafns Margrétar segir Þórður Helgason hana vera eina af „skáldum þagnarinnar“.

Síðustu mánuði ævi sinnar lá Margrét á sjúkrabeði vegna lærbrots og meiðsla sem hún fékk við að detta af hestbaki. Hún lést á Þorláksmessu 1935, tæplega sjötug.

Finnbogi skrifaði upp mikið af ljóðum konu sinnar og synir hennar varðveittu þau. Afkomendur Margrétar gáfu ljóð hennar út á bók nýlega.

Heimildir:

Formáli eftir barnabörn Margrétar og „Um ljóðagerð Margrétar“ eftir Þórð Helgason. Ljóð Margrétar Pálmadóttur frá Sauðafelli. Afkomendur Margrétar gáfu út, án ártals.

Mynd af Margréti er úr bókinni. 


Ritaskrá

  • 2018 Ljóð Margrétar Pálmadóttur frá Sauðafelli