Arnliði Álfgeir
Arnliði Álfgeir er dulnefni og er talið nokkuð víst að þar að baki dyljist kona. Enginn veit þó hver sú kona er.
Árið 1959 kom út ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni og var hún merkt höfundinum Arnliða Álfgeir. Lengi vel var talið víst að þar væri karlmaður á ferð enda dulnefnið karlkyns og að auki talar ljóðmælandi í karlkyni. Bókin vakti talsverða athygli þegar hún kom út og fólk velti því mjög fyrir sér hver gæti verið höfundurinn. Þá rötuðu einnig nokkur ljóð eftir Arnliða Álfgeir í safnið Íslenzk ljóð 1954–1963 sem kom út árið 1972.
Í einum þætti Kiljunnar, árið 2011, kom fram að líklega væri höfundurinn Þórarinn Guðnason læknir. Í kjölfarið skrifaði sonur Þórarins, Freyr, grein í Vísi þar sem hann leiðrétti þann misskilning. Freyr hafði eftir föður sínum að Þórarni hefði verið eignuð bókin í spjaldskrá Landsbókasafnsins þar sem hann gekk frá henni til prentunar. Þórarinn sagðist hins vegar hafa gert það fyrir einn sjúkling sinn, sem væri eiginkona þjóðkunnugs manns. Hann hafi heitið því að gera þetta í algjörum trúnaði því ljóðin væru ástarjátning hennar til konu sem hún ann og sú ást hafi verið í meinum. Þórarinn hélt loforð sitt, gaf aldrei upp nafn konunnar og tók leyndarmálið með sér í gröfina.
Ef Arnliði Álfgeir var kona, sem allt bendir til, þá er ljóðabókin ein allra fyrsta íslenska bókin sem fjallar um ástir kvenna, er lesbísk ljóðabók, og mjög merkileg sem slík í íslenskri bókmenntasögu.
Heimildir
Ásta Kristín Beneditsdóttir. 2012. „Bókin sem kom út úr skápnum: Um ljóðabókina Kirkjan á hafsbotni.“ Dagskrárrit Hinsegin daga. Slóðin er https://astabenediktsdottir.files.wordpress.com/2015/09/bc3b3kin-sem-kom-c3bat-c3bar-skc3a1pnum.pdf
Freyr Þórarinsson. 2011, 16. desember. „Leyndarmál Kiljunnar: Hver var Arnliði Álfgeir?“ Vísir. Slóðin er http://www.visir.is/g/2011712169987/leyndarmal-kiljunnar--hver-+var-arnlidi-alfgeir-
„Kirkjuklukkur.“ 1960, 20. mars. Alþýðublaðið: Sunnudagsblaðið. Slóðin er http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3615100
Ritaskrá
- 1959 Kirkjan á Hafsbotni