SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Margrét Sveinsdóttir

Margrét Sveinsdóttir er fædd á Hofi í Öræfasveit 16. september 1829 og átti þar heima til 28 ára aldurs. Var hún ein fimm systra sem allar voru skáld. Margrét var vinnukona á ýmsum stöðum sunnan lands og austan, og eignaðist á þeim árum son í lausaleik sem hún hafði með sér í vinnumennskunni. Árið 1873 réðist hún sem bústýra hjá Guðmundi Eyjólfssyni landpósti á Grímsstöðum í Meðallandi, sem þá var ekkjumaður. Var hún hjá honum í tæp tíu ár, og eignaðist með honum son. Þegar hún var nálægt því að ávinna sér sveitafesti í Meðallandi var henni vikið heim í fæðingarsveit sína og þeim Guðmundi þannig stíað sundur. Eftir það var hún vinnukona í Öræfum í nokkur ár, en hélt áfram góðu sambandi við Guðmund sem árið 1892 lét prenta á sinn kostnað ljóðabók eftir Margréti, Draumur Guðrúnar Brandsdóttur og fáein ljóðmæli kveðin 1874-1882 af Margréti Sveinsdóttur þá til heimilis á Grímsstöðum í Meðallandi. Var Margrét sú eina af systrunum fimm sem sá eftir sig ljóð á prenti. Síðari hluta ævinnar bjó hún með sonum sínum á ýmsum stöðum vestanlands og við Breiðafjörð, m.a. í Flatey. Hún lést 9. janúar 1926 í Skálmarnesmúla í Múlasveit.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Margrét Sveinsdóttir 1829-1926“, bls. 121. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.


Ritaskrá

  • 1892 Draumur Guðrúnar Brandsdóttur og fáein ljóðmæli kveðin 1874-1882 af Margréti Sveinsdóttur þá til heimilis á Grímsstöðum í Meðallandi