SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

María Jóhannsdóttir

María Jóhannsdóttir fæddist 4. júní 1886 að Víðidalsá í Strandasýslu. Móðir hennar varð ekkja með þrjú ung börn og ólst María upp hjá henni til fermingaraldurs. Hún hafði snemma löngun til að mennta sig en bláfátæk ekkja hafði ekki mikla möguleika á að mennta börn sín. María naut þó einhverrar tilsagnar hjá frænda sínum sem stundaði nám í Heydalsárskóla við Steingrímsfjörð, unglingaskóla Strandasýslu. Síðar fór hún sjálf til náms í þeim skóla og lauk unglingaprófi vorið 1902, tæplega 16 ára gömul. En María vildi læra meira og ári síðar hélt hún til Reykjavíkur, ein og peningalaus. Hún mun hafa ætlað að stunda nám meðfram vinnu og stefndi í Menntaskólann í Reykjavík. Á næstu árum vann María ýmis störf, þ. á m. á veitingahúsi og skrifstofum. Samhliða því stundaði hún sjálfsnám og einn vetur sat hún sem óreglulegur nemandi í 4. bekk Kvennaskólans. Lengri varð skólagangan ekki að sinni og aldrei komst hún í menntaskóla: „En fyrir allslausan kvenungling, sem að mestu varð að brjótast áfram á eigin spýtur, var sú leið fyrirfram lokuð“ skrifaði Ingibjörg Þorgeirsdóttir, í grein um Maríu.

María gerðist heit baráttukona fyrir kvenréttindum og var virkur meðlimur í Kvenréttindafélagi Íslands og Lestrarfélagi kvenna í Reykjavík. Hún skrifaði margar greinar um kvenréttindamál í blöð og tímarit og reyndar birti hún blaðagreinar um hin margvíslegustu málefni. Þegar alþingi Íslendinga fagnaði opinberlega kosningarétti íslenskra kvenna, þann 7. júlí 1915, stóðu kvenfélögin í Reykjavík fyrir samkomu á Austurvelli þar sem prentaðri hátíðardagskrá var dreift til viðstaddra. Þar voru prentuð tvö kvæði í tilefni dagsins, annað eftir Jón Trausta en hitt eftir Maríu Jóhannsdóttur. Kvæði Maríu ber vitni um heita trú hennar, í því ávarpar hún Drottinn í heitri bæn um handleiðslu. Sjá nánar: https://landsbokasafn.is/index.php/news/785/90/Konur-fagna-kosningaretti

Fyrsta og eina skáldsaga Maríu, Systurnar frá Grænadal, kom út árið 1908. Sama ár birtust kvæði og smásaga eftir Maríu í Þjóðólfi og á næstu árum birti hún fleiri sögur og kvæði í dagblöðum og tímaritum. Skáldsaga Maríu ber öll merki nýrómantísks skáldskapar sem var á þeim tíma að ryðja sér til rúms í íslenskum bókmenntum. Harmræn ástarsaga er sögð í bókinni og einkennist frásagnarhátturinn af sterkum og heitum tilfinningum. Stór hluti sögunnar er skrifaður í bréfaformi og er frásögnin öll brotakennd. Auk nýrómantískra persónulýsinga er að finna í bókinni harða ádeilu á presta og tvöfalt siðgæði í trúmálum. Að því leyti má tengja söguna líka við raunsæisstrauma í íslenskum bókmenntum.

Enda þótt Maríu tækist þannig með dugnaði og elju að sinna hugðarefnum sínum varð það of erfitt til lengdar. Þegar öll sund virtust lokuð vegna fátæktar bauðst henni hjúkrunarnemastaða við Laugarnesspítala. Þangað hélt hún og að loknu hjúkrunarnámi réð hún sig til starfa við Vífilstaðaspítala árið 1914. En fátækt og illur aðbúnaður hafði þá sett mark sitt á Maríu. Hún hafði fengið mislinga og brjósthimnubólgu og árið 1918 smitaðist hún af spænsku veikinni á Vífilstöðum. Þá fékk hún berkla sem hún átti við að stríða æ síðan sem drógu hana að lokum til dauða árið 1924. Þá var hún 38 ára gömul.

Eftirfarandi ljóð Maríu gefur innsýn inn í erfiða ævi skáldkonunnar um leið og það ber vitni um góð tök hennar á skáldskaparmáli og ljóðrænni hugsun.

Þunglyndi

Það kemur yfir mig dapurt sem dauðinn,
djúpt eins og hafið — án þess mig vari.
Það kemur og blæs á hvert ljós sem mér lýsir,
svo lífið allt finnst mér blakta á skari.
Það kemur og vekur mér vonleysi og kvíða
og veikir kraftana og sundurtætir.
Það kemur með sársauka, angur og ama
og endurminning hverja sem grætir.
Það kemur helzt þegar nóttin er nálæg
og næðið og myrkrið í kring um mig ríkir.
Þá grípur það hjartað með heljartökum
og huga minn skelfir og lamar og sýkir.

 

Í tímaritinu Breiðfirðingi 1961-1962 má lesa nokkur ljóð eftir Maríu, auk áðurnefndrar greinar Ingibjargar Þorgeirsdóttur.

Heimildir

  • Gunnar Þorsteinsson. „María Jóhannsdóttir skáldkona.“ Óðinn 23. árg. 1927
  • Ingibjörg Þorgeirsdóttir. „María Jóhannsdóttir skáldkona.“ Breiðfirðingur 20.-21. árg. 1961-1962
  • Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík: Mál og menning 1989.

Ritaskrá

  • 1908    Systurnar frá Grænadal