SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Oddfríður Sæmundsdóttir

Oddfríður Sæmundsdóttir (Fríða) fæddist 13. júní 1902 á Elliða í Staðarsveit. Foreldrar hennar voru Stefanía Sæmundsdóttir húsmóðir, og Sæmundur Sigurðsson bóndi og hreppstjóri. Oddfríður giftist Ingólfi Sveinssyni og eignuðust þau þrjá syni, einn þeirra var Guðmundur píanóleikari.

Oddfríður stundaði verslunarstörf o.fl. áður en hún varð heimavinnandi húsmóðir. Eftir lát eiginmanns síns starfaði hún við verslun o.fl. Seinast vann hún hjá Lyfjaverslun ríkisins. Fríða lést árið 2000.

Fyrsta kvæði Oddfríðar sem birtist á prenti heitir „Við dagsetur“. Guðrún Erlingsdóttir, ekkja Erlings Þorsteinssonar, birti það í bók sem heitir Dropar og kom út 1927. Þegar Oddfríður var 86 ára gaf hún sjálf út ljóðabókina Rökkvar í runnum. Í bókinni eru ljóð ort á ýmsum tímum, einnig sönglagatextar, skátaljóð og þýðingar. Á bókarkápu segir Oddfríður að nú hausti að og rökkvi í runnum og ævikvöldið færist yfir og bókin sé því jafnframt kveðja til vina og samferðarmanna. Mörg ljóðin eru ort við Hreðavatn í landi Laxfoss. Kvæðið „Rökkvar í runnum“ hefur verið sungið inn á hljómplötur af Sigurði Ólafssyni og síðar Þuríði Sigurðardóttur og Ragnari Bjarnasyni, en lagið gerði Jónatan Ólafsson, frændi Oddfríðar. Kvæðið hefst svo: 

Rökkvar í iðgrænum runnum
rósirnar blómknöppum loka.
Tunglskinið titrar á unnum
tindana umlykur þoka...
 

Hér má lesa viðtal við Oddfríði í Mbl. frá 1991.


Ritaskrá

1988  Rökkvar í runnum