SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Olga Guðrún Árnadóttir

Olga Guðrún er fædd 31. ágúst 1953. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1973 og stundaði nám við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1977-1978.

Olga Guðrún vann lengi að dagskrárgerð hjá RÚV. Hún var skrifstofustjóri Rithöfundasambands Íslands 1974 og skrifstofustjóri Stúdentaráðs HÍ 1975. Hún kenndi leikræna tjáningu við ýmsa skóla í Reykjavík 1973-1975. Var leiðbeinandi barna í gerð útvarpsþátta við Inter-action götuleikhúsið í London sumarið 1978. Píanó- og tónfræðikennari við Tónskóla Neskaupstaðar 1978-1979. Undirleikari við söngkennslu hjá Leiklistarskóla Íslands 1979-1980. Prófarka- og handritalesari og tölvusetjari bóka hjá Máli og menningu, Forlaginu, JPV útgáfu, Morgunblaðinu o.fl. frá 1984. Hefur stundað þýðingar frá 1973.

Olga Guðrún hefur samið ljóð og smásögur sem birst hafa í bókum og tímaritum og bæði samið og flutt tónlist. Hún samdi tónlist við leikritið Amma þó og við sjónvarpsmyndina Emil og Skundi, sem byggð er á sögu Guðmundar Ólafssonar. Hljómplötur: Babbidí-bú, 1994, 14 frumsamin lög og ljóð fyrir börn, sungin af höfundi. Söng auk þess lög og ljóð Ólafs Hauks Símonarsonar á hljómplötunum Eniga Meniga, 1974 (endurútg. 1995), Kvöldfréttir, 1977, og Hattur og Fattur komnir á kreik, 1979.

Olga Guðrún sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands 1983-1987 og í stjórn Rithöfundasjóðs Íslands 1986-1988. Hún var stjórnarmaður og gjaldkeri Leikskáldafélags Íslands 1989-1999. Sat í stjórn Útgáfufélags Þjóðviljans 1986-1990 og stjórn Útgáfufélagsins Bjarka frá 1990. Einnig vann hún ýmis trúnaðarstörf á vegum Alþýðubandalagsins, m.a. varaformaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1987-1988. Varamaður í Menntamálaráði 1987-1991. Varamaður í menningarmálanefnd Reykjavíkur 1986-1990. Í stjórn Ásmundarsafns 1986-1990 og settist í úthlutunarnefnd Norræna þýðingarsjóðsins 2001.

Mynd af Olgu Guðrúnu: Glatkistan


Ritaskrá

  • 1995  Peð á plánetunni Jörð (endurútg. 2002)
  • 1991  Ævintýri á jólanótt
  • 1989  Ferðin á heimsenda (barnaleikrit)
  • 1984  Amma þó (barnaleikrit)
  • 1982  Flóttafólk (útvarpsleikrit) 
  • 1982  Vegurinn heim 
  • 1977  Búrið
  • 1972 Trilla, álfarnir og dvergurinn Túlli
  • 1971 Ditta og Davíð (barnaleikrit) 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1998 Peð á plánetunni Jörð  valin á heiðurslista alþjóðlegu IBBY-samtakanna
  • 1996 Viðurkenning IBBY-samtakanna fyrir ritstörf og framlag til barnamenningar
  • 1990 Viðurkenning IBBY-samtakanna fyrir Ferðina á heimsenda
  • 1985 Viðurkenning Fræðsluráðs fyrir söguna Pétur
  • 1984 Verðlaun Samtaka móðurmálskennara fyrir smásöguna Vertu ekki með svona blá augu