SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Arnrún frá Felli

Arnrún frá Felli var skáldanafn Guðrúnar Tómasdóttur sem fæddist í Mýrarsýslu 1886 og ólst þar upp.

Nítján ára gömul flutti hún til Reykjavíkur og hóf ljósmóðurnám en slíkt nám var ein af fáum leiðum sem opnar voru konum til menntunar á þeim tíma. Veturinn 1907-8 stundaði hún framhaldsnám í hjúkrun í Kaupmannahöfn og starfaði þar sem ljósmóðir næsta vetur. Hún snéri aftur til Íslands og réði sig í starf embættisljósmóður á Ísafirði og gegndi því starfi í níu ár, 1909-1917. Á þeim árum fékkst hún mikið við ljóðagerð en einnig birti hún smásögur í dagblöðum og tímaritum, t.d. í Eimreiðinni og Iðunni. Fæst ljóða hennar hafa birst á prenti.

1917 fór Guðrún til Vesturheims og mun ætlun hennar hafa verið að dvelja þar aðeins í skamma hríð en kynntist þar, Karli Friðriki Bjarnasyni sem var doktor í málvísindum og starfaði sem prófessor við Harvard. Þau giftu sig árið 1918 og bjuggu í Bandaríkjunum til æviloka. Aðalstarfi Guðrúnar um þriggja áratuga skeið var að vélrita fyrirlestra og rannsóknir eiginmanns síns. Sú vinna hefur vafalaust veitt henni mikla innsýn í málvísindi, hún hafði mikla þekkingu á tungumálum, talaði auk íslensku, ensku og norðurlandamála, þýsku, frönsku og spænsku. Vegna starfs eiginmannsins bjuggu þau um tíma bæði í Þýskalandi og Frakklandi.

Sögur og ljóð eftir Guðrúnu/Arnrúnu birtust víða í tímaritum en aðeins ein bók eftir hana var gefin út, smásagnasafnið Margs verða hjúin vísari. Þar eru 13 sögur sem eru með fyrstu Reykjavíkursögum íslenskra bókmennta. Aðalpersónur flestra sagnanna eru ungar, fjörmiklar stúlkur og má segja að um nýja kvenmynd sé að ræða. Guðrún skrifaði stíl sem samsvarar vel sögusviði og efni. Hún notar „nýtískulegt“ málfar með orðatiltækjum og slettum úr borgarmáli. Hún nær upp hraða í frásögn með því að sleppa smáorðum og tengingum, t.d. í samtölum. Frásagnarmáti hennar er víða gamansamur, jafnvel þótt efnið sé „háalvarlegt“.

Guðrún lést árið 1972 á Cambridge-sjúkrahúsinu í Massachusetts en hafði þá verið ekkja síðan árið 1949. Í minningu hennar orti skáldkonan Steingerður Guðmundsdóttir ljóðið „Til Ljósu“.

 

Heimildir:

Soffía Auður Birgisdóttir, „Skyldan og sköpunarþráin. Ágrip af bókmenntasögu íslenskra kvenna 1879-1960.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960 (1987)

Björg Einarsdóttir. „Arnrún frá Felli“, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna III (1986)


Ritaskrá

  • 1956  Margs verða hjúin vís (smásögur)