SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður Jónsdóttir fæddist 9. apríl árið 1895 á Stokkseyri.

Foreldrar Ragnheiðar voru Guðrún Magnúsdóttir og Jón Sigurðsson. Jón starfaði við kennslu og fetaði Ragnheiður í fótspor hans og lauk lauk kennaraprófi árið 1923. Þá stundaði hún framhaldsnám í Englandi og Bandaríkjunum.

Í Kennaraskólanum kynntist hún verðandi mannsefni sínu, Guðjóni Guðjónssyni, og giftu þau sig árið 1916. Þau eignuðust tvö börn: Jón Ragnar og Sigrúnu.

Ragnheiður hóf kennslu í Austurbæjarskólanum um það leyti sem hann var stofnaður og maður hennar var skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Eftir um 18 ára langan kennsluferil gaf Ragnheiður sig eingöngu að ritstörfum. Hún var afar afkastamikill höfundur og sendi frá sér yfir 20 bækur fyrir börn og unglinga, átta skáldsögur fyrir fullorðna og tvö smásagnasöfn. Þá liggja einnig eftir hana óbirt handrit.

Bækur Ragnheiðar hlutu góðar viðtökur frá lesendum sínum og var hún t.d. ein af fimm mest lesnu höfundum alþýðubókasafnanna í kringum 1960. Dagný Kristjánsdóttir (2010) segir svo frá að Ragnheiður hafi fyrst og fremst verið „sálfræðilega raunsær höfundur sem lýsir einstaklingum í samspili við umhverfi sitt“ og sömuleiðis að hún lýsi unglingum af miklum skilningi í bókum á borð við Dóru- og Kötlubækurnar.  

Ragnheiður bjó m.a. í Vestmannaeyjum, Hafnarfirði og á Stokkseyri. Hún var búsett í Reykjavík frá árinu 1955 og lést þar 9. maí árið 1967.

Dagný Kristjánsdóttir skrifaði doktorsritgerð um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur og íslenskt bókmenntalíf á þeim tíma sem hún var að skrifa. Sjá: Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna (Háskólaútgáfan 1996).

 


Ritaskrá

 • 1967  Villieldur
 • 1967  Katla kveður
 • 1966  Atli og Una
 • 1965  Hvít jól
 • 1964  Og enn spretta laukar. Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi.
 • 1964  Katla og Svala
 • 1962  Katla þrettán ára
 • 1961  Mín liljan fríð
 • 1960  Katla vinnur sigur
 • 1959  Katla gerir uppreisn
 • 1959  Deilt með einum
 • 1958  Glaðheimakvöld
 • 1958  Sárt brenna gómarnir. Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi.
 • 1956  Vala og Dóra
 • 1955  Gott er í Glaðheimum
 • 1955  Aðgát skal höfð. Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi.
 • 1954  Ég á gull að gjalda. Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi.
 • 1954  Dóra í dag
 • 1952  Dóra sér og sigrar
 • 1951  Í Glaðheimum
 • 1950  Hörður og Helga
 • 1949  Dóra verður átján ára
 • 1948  Vala
 • 1947  Dóra og Kári
 • 1945  Í skugga Glæsibæjar
 • 1945  Dóra í Álfheimum
 • 1945  Dóra
 • 1943  Hlini kóngsson
 •  1941  Arfur
 • 1936  Mislitir menn
 • 1935  Sæbjört
 • 1934  Ævintýraleikir fyrir börn