Rut Guðnadóttir
Rut Guðnadóttir er fædd 12. ágúst árið 1994.
Rut útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2013 og fór beint í Háskóla Íslands og lauk BS gráðu í sálfræði með ritlist sem aukafag (2016), MA gráðu í ritlist (2019), BA gráðu í íslensku með sálfræði sem aukafag (2020) og viðbótardiplómu í Menntun framhaldsskólakennara með íslensku sem kjörsvið vorið 2021.
Fyrsta bók hennar er Vampírur, vesen og annað tilfallandi en hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2020. Hugmyndin varð upphaflega til í ritlistarnáminu í Háskóla Íslands. 2021 kom út sjálfstætt framhald bókarinnar, Drekar, drama og meira í þeim dúr og 2022 kom út lokabókin í þríleiknum: Heimsendir, hormónar og svo framvegis.
Rut hefur einnig skrifað pistla fyrir fjölmiðla og nokkrar smásögur, þar má nefna smásöguna „Með hnút í maganum“ sem birt var í smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi 2021.
Ritaskrá
- 2022 Heimsendir, hormónar og svo framvegis
- 2021 Drekar, drama og meira í þeim dúr
- 2020 Vampírur, vesen og annað tilfallandi
Verðlaun og viðurkenningar
- 2020 Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Vampírur, vesen og annað tilfallandi