SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Auður Haralds

Auður Haralds er fædd 11. desember 1947. 

Auður hefur starfað sem blaðamaður, þýðandi, útvarpskona og pistlahöfundur og sinnt verslunar-, skrifstofu- og verksmiðjustörfum. Í skáldsögum sínum fjallar hún um kvennakúgun og hlutskipti lágstéttarkvenna og stíll hennar einkennist af íróníu, frumlegum myndhverfingum og sviðsetningum. Fjöldi greina eftir Auði um jafnréttis- og samfélagsmál hafa birst í fjölmiðlum. 

Fyrsta skáldsaga Auðar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979. Hún vakti mikla athygli og opnaði umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi og kvennakúgun. 

Auður fylgdi þeirri bók eftir með Læknamafíunni sem út kom 1980. Undir titilinum framan á bókarkápunni stendur ,,Lítil pen bók eftir Auði Haralds“ en þannig vísar Auður til þeirra niðrandi ummæla sem kvenrithöfundar fengu um skáldverk sín á þessum tíma.

Hlustið þér á Mozart? kom út 1982; íronísk ádeilda á innantómt líf heimavinnandi húsmóður sem les formúlukenndar ástarsögur til að drepast ekki úr leiðindum. Síðar gerði Auður makalaust grín að þeirri bókmenntategund í Ung, há, feig og ljóshærð sem er paródía á slíkar ástarsögur.

Auður skrifaði afar vinsælar barnabækur um prakkarann Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði ásamt Valdísi Óskarsdóttur fyrir Stundina okkar. Unglingabókin Baneitrað samband á Njálsgötunni (1985) varð einnig afar vinsæl og síðar var gerð leikgerð eftir henni sem sett var á svið í íslensku Óperunni og víðar. 

Auður tilheyrir þeim hópi kvenrithöfunda sem hætti að skrifa á níunda áratugnum en kenningar um ástæður þess eru reifaðar í lokaritgerð Kolbrúnar Huldu Pétursdóttur frá 2014. Árið 2007 skrifaði Auður Litlu, rauðhærðu stúlkuna, barnabók með myndskreytingum eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur.

Auður bjó um skeið á Ítalíu en bjó lengst af í Reykjavík.

Auður Haralds lést 2. janúar 2024.

 

Heimildir:
Kolbrún Hulda Pétursdóttir. Húmor sem skjöldur. 2014
Í þættinum Bók vikunnar á rás eitt má heyra upplestur Auðar, brot úr viðtölum við hana o.fl.:
Mynd af Auði er fengin af vefnum Lifðu núna

Ritaskrá

 • 2022  Hvað er Drottinn að drolla?
 • 2007  Litla rauðhærða stúlkan
 • 1994  Aðdragandi (smásaga í Tundur dufl)
 • 1987  Ung, há, feig og ljóshærð
 • 1986  Elías, Magga og ræningjarnir
 • 1985  Elías kemur heim
 • 1985  Baneitrað samband á Njálsgötunni
 • 1985  Elías á fullri ferð
 • 1984  Elías í Kanada
 • 1983  Elías
 • 1982  Hlustið þér á Mozart?
 • 1980  Læknamafían. Lítil pen bók
 • 1979  Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn

 

Þýðingar

 • 2010 Stígvélaði kötturinn, Hans og Gréta, Tumi þumall. Haninn, músin og litla rauða hænan
 • 1981 Dulin fortíð eftir Phyllis A. Whitney

Tengt efni