SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigga skálda

Sigríður Jónsdóttir, Sigga skálda, var uppi á sautjándu öld og lést að líkindum á fyrsta áratug átjándu aldar.

Hún mun hafa kveðið sálma, rímur, vers og kvæði, eins og segir í Drögum að íslenskri bókmenntasögu eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík.

Bestu heimildina um Siggu skálda og kveðskap hennar er að finna í riti Guðrúnar P. Helgadóttur, Skáldkonur fyrri alda sem kom út í tveimur bindum 1961 og 1962 og var síðar enduútgefið 1995. 

Gísli Konráðsson ritar þátt um Siggu og segir að hún hafi verið þekkt fyrir kveðskap sinn og eignar henni kvæðið Geðfró sem er langt og merkilegt trúarkvæði, lagt konu í munn. Kvæðinu mætti lýsa sem vitrun sem er ekki algeng í íslenskum skáldskap. Fá kvæði hafa verið skrifuð jafnoft upp og Geðfró en hún er til í 55 afskriftum á Landsbókasafni. Í Geðfró er lýst baráttu góðs og ills í sál konu sem heimurinn hefur haft að háði og spotti. 

Lengst af var Sigga skálda niðursetningur eða á vergangi. Eitt sinn, er hún var á ferð, komu tveir menn ríðandi á eftir henni. Spauguðu þeir með það sín á milli, hvort þar færi tófa á undan þeim. Sigga heyrði, hvað þeir sögðu og kvað:

Tryggð finnst engin tófu með,
títt það margir skrafa,
en reynið þið, hvort refsins geð
rekkar engir hafa.

 

Guðrún P. Helgadóttir skrifar í þætti sínum um Siggu skálda að kvæðið Geðfró sé „meðal merkilegri trúarljóða lærdómsaldar“ og að þar fari „saman skáldleg tilþrif og svo sterk trúarinnlifun, að fá kvæði gefa betri innsýn í hugarheim einstaklings frá þeim tíma.“ Einnig skrifar hún að með „kvæðinu hefur höfundurinn bæði veitt sjálfum sér og öðrum fró í geð, – og lengra verður ekki komist í trúarvissu en telja hugsýnir sínar og geðmyndir raunverulegastar alls raunveruleika.“

Náðugi guð, í nafni þínu,
neyð so verði kvitt,
nú skal varpa út neti mínu
í náðardjúpið þitt.
 
Eins og annað förufólk þakkaði Sigga Skálda gjarnan fyrir sig þar sem hún hafði notið beina með vísu. Þessi vísa er eignuð henni:
 
Kæri vinur, kem eg enn,
kýs eg næturvist hjá þér.
Guð launi yður, góðu menn,
það gjörðuð þér mér.

Jón Grunnvíkingur telur að Sigga hafi látist í Bólunni, árið 1707.

Heimild:
Guðrún P Helgadóttir (1961/1995). Skáldkonur fyrri alda I.
 

Ritaskrá

  • Geðfró
  • Sálmar, vers, kvæði og lausavísur