SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Signý Hjálmarsdóttir

Signý Hjálmarsdóttir skáldkona fæddist að Húsabakka í Aðaldal þann 18. september 1920. Hún var ein af þrettán systkinum. Hún byrjaði snemma að fást við kveðskap. Signý gekk í gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Hún giftist Baldri Guðmundssyni, eignuðst þau þrjú börn og bjuggu að Bergi í Sandslandi. „Signý gaf sig alla að húsmóðursstarfinu en gat þó ekki hamið sig við að yrkja um sín hugðarefni eða eins og segir í formála bókar hennar Geislabrot sem kom út árið 1957. „Hugurinn hafði þá smeygt sér úr hafti hversdagsleikans og flogið til fjarlægra draumalanda“ (Sigríður Pétursdóttir, 1957).“

Í formála Geislabrota segir að þó svo að Signý hafi fengist við að setja saman kvæði og vísur þá kunni enginn tveimur herrum að þjóna. Ætla má að listsköpun Signýjar hafi lotið í lægra haldi fyrir húsmæðrahlutverkinu eins og svo títt er um skáldkonur þessa tíma. Kvæði hennar komu ekki út fyrr en að henni látinni. Þau mynda því ekki listræna heild, heldur eru þau tækifærisvísur um ýmislegt sem skáldinu var hugleikið. Signý lést ung, aðeins 36 ára.

Magnea Þ. Ingvarsdóttir hefur fjallað um og greint ljóð Signýjar í meistaraprófsritgerð sinni frá 2015 og telur hana snjallt skáld sem hafi haft margt fram að færa en hafi ekki getað notið hæfileika sinna. 

Heimild

Magnea Þ. Ingvarsdóttir. 2015 „Enginn kann tveimur herrum að þjóna. Bókmenntagreiningar á kvæðabókum Helgu Pálsdóttur, Signýjar Hjálmarsdóttur og Þóru Jónsdóttur.“


Ritaskrá

  • 1957 Geislabrot