SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigríður Bogadóttir

Sigríður Bogadóttir var fædd á Staðarfelli á Fellsströnd 22. ágúst 1818, dóttir Boga Benediktssonar, fræðimanns, og Jarðþrúðar Jónsdóttur konu hans. Átján ára gömul sigldi hún til Kaupmannahafnar sér til menntunar, en litlar heimildir eru til um það. Árið 1841 giftist hún Pétri Péturssyni, ekkjumanni og tíu árum eldri en hún, sem þá var prófastur á Staðastað á Snæfellsnesi. Árið 1848 fluttist hún með manni sínum til Reykjavíkur, þegar hann varð forstöðumaður Prestaskólans, með prófessorsnafnbót. Árið 1866 var hann vígður biskup og hélt því starfi til ársins 1889. Pétur var einnig konungskjörinn alþingismaður og fékkst við ritstörf. Pétur varð brátt einn ríkasti maður landsins.

Í Reykjavík áttu þau Sigríður og Pétur heima í tvílyftu timburhúsi við Austurstræti 16, þar sem síðar var Reykjavíkurapótek. Þau eignuðust sex börn. Af þeim komust þrjú til fullorðinsára, Elinborg (1841–1925), sem giftist Bergi Thorberg, amtmanni og síðar landshöfðingja, Þóra (1848–1917), sem giftist Þorvaldi Thoroddsen, landfræðingi, og Bogi Pétur (1849–1889), læknir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir Sigríði svo að hún hafi verið „hin mesta búsýslukona og sístarfandi utanhúss og innan“, og heimilið fyrirmynd hvað verknað snerti og hússtjórn. Hafi því oft verið sóst eftir að koma þangað stúlkum til kennslu, en færri fengið en vildu. Dæturnar hafi hún látið læra „allt sem hússtjórn snerti, eigi að eins sauma og hannyrðir, almenna bóklega menntun, tungumál og hljóðfæraslátt, heldur hjelt hún þeim líka til lærdóms í allri tóvinnu og matargjörð og ljet þær fást við hvert það verk, sem á heimili er títt og búið þarf“ (Þorvaldur Thoroddsen 1908: 274). Þá var hún „ráðdeildarsöm í stóru og smáu og vildi ekki, að neitt spilltist eða eyddist að óþörfu“, en um leið „stórgjöful“ og rausnarleg „og hinn mesti bjargvættur margra fátækra“ (Þorvaldur Thoroddsen 1908:

275). Um gjafir hennar hafi þó fáir fengið að vita aðrir en þeir sem fyrir urðu og hafi góðgerðastarfsemi hennar, sem og einnig Péturs biskups, farið fram í kyrrþey. Þá segir Þorvaldur að Sigríður hafi verið „siðavönd mjög og stundum berorð um það, sem henni þótti miður fara“, hafi hún ekki gert sér neinn mannamun en sagt skoðanir sínar afdráttarlaust, hverjum sem í hlut átti.

Frú Sigríður skrifaði ekki aðeins leikrit, heldur var hún „ein hin fyrsta kona í Reykjavík, sem verulega ljet sjer annt um blómrækt utanhúss […] og var garður hennar fyrirmynd, sem margir komu að sjá“ (Þorvaldur Thoroddsen 1908: 276-277)

Eftir lát Péturs biskups, 15. maí 1891, fluttist Sigríður til Kaupmannahafnartil dóttur sinnar Elinborgar, sem þá var orðin ekkja.Árið 1896 fluttust þangað einnig dóttirin Þóra og tengdasonurinn Þorvaldur Thoroddsen ásamt dóttur sinni, Sigríði, barni að aldri. Sigríður Bogadóttir lést 10. mars 1903, tæpum mánuði á undan Sigríði litlu, nöfnu sinni. Hún var grafin í Solbjerg kirkjugarði,nálægt þeim stað þar sem hún hafði átt heima á Friðriksbergi, og er leiði hennar týnt. Legstaður biskupsins, mannsins hennar, er hins vegar í Reykjavík, Hólavallagarði, með veglegum bautasteini sem stendur enn.

Heimild: Grein Helgu Kess: „Það er ekki ljósunum að því lýst.“ Greinina alla má finna í greinasafni Helgu Kress hér á síðunni.


Ritaskrá

2015 Glæsilegur afmælisdagur. Leikrit í þremur þáttum [1873]. 

Leikritið má nálgast í greinasafni Helgu Kress hér á síðunni.