Sigríður Jónsdóttir
Sigríður Jónsdóttir er fædd 1964 í Gýgarhólskoti í Biskupstungum, þar sem hún ólst upp. Hún er sauðfjárbóndi í Arnarholti í Biskupstungum auk þess sem hún kennir náttúrufræði, eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla Bláskógabyggðar.
Sigríður lauk BS gráðu í landbúnaðarfræðum frá Hvanneyri 1991 og áður en hún gerðist bóndi starfaði hún sem landbúnaðarráðunautur í fimm ár. Hún hefur verið búnaðarþingfulltrúi á Suðurlandi og ber hag kvenna í bændastétt mjög fyrir brjósti. Þá stofnaði hún, ásamt fleirum, Búkollu - félag til verndar íslenska kúakyninu.
Sigríður hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur og vakti önnur bók hennar, Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf, sérstaklega athygli. Þar yrkir Sigríður á einkar frumlegan hátt um kynlíf og hlaut hún verðlaunin Rauðu hrafnsfjöðrina, sem veitt er fyrir forvitnislegustu kynlífslýsingu ársins, fyrir eitt ljóða bókarinnar, auk þess sem bókin hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna.
Sigríður lýsti bókinni sem "antíklámi": „Ég er mjög frábitin klámi og er eiginlega í herferð gegn því. Þessi bók er fyrst og fremst óður til kynlífs og ástarinnar; kynæxlunin er samofin sögu lífs á jörðinni og þetta er elsta söguefni í heimi."
Kristín Svava Tómasdóttir segir í ritdómi á vefsíðunni Druslubækur og doðrantar um Kanil:
"Ég verð að segja að mér finnst erótíkin bara frekar vel heppnuð, sem er ekki lítill sigur, hún er eitthvað svo vandmeðfarin og verður auðveldlega áreynslukennd og tilgerðarleg. Hér er erótíkin prakkaraleg og opinská og snýst mjög um það hvað það er þrúgandi að leggja hömlur á kynferðið, eins og er auðvitað ekki síst gert í tilfelli kvenna. Mér finnst hin frelsandi erótík konunnar stundum eiga það til verða hálfvæmin – einhver svona Píkusögufílingur – en þessi er alveg laus við það."
Síðast sendi Sigríður frá sér ljóðabókina Undir ósýnilegu tré árið 2013.
Sigríður er gift Sævari Bjarnhéðinssyni og er þriggja barna móðir.
Heimildir:
Silja Björk Huldudóttir, "Lagðist út í laut með roða í kinnum að skrifa um kynlíf" (viðtal við Sigríði Jónsdóttur), Morgunblaðið 20. des. 2011, sjá: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1404347/
Án höf. (viðtal við Sigríði Jónsdóttur) á vefsíðu Vísis, "Óður til kynlífs og hvöt gegn klámi", 22. des. 2011, sjá: https://www.visir.is/g/20111214751d
Kristín Svava Tómasdóttir, "Veður af graðhesti", Druslubækur og doðranar, 9. nóvember 2011, sjá: http://bokvit.blogspot.com/2011/11/veur-af-grahesti.html
Kristín Heiða Kristinsdóttir, "Sigga í sveitinni", 19. júní 2001, bls. 14-16, sjá: https://timarit.is/gegnir/000551208
Ritaskrá
- 2013 Undir ósýnilegu tré
- 2011 Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf
- 2005 Einnar báru vatn
Verðlaun og viðurkenningar
- 2012 Rauða hrafnsfjöðrin fyrir Kanil
- 2012 Tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir Kanil