SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigrún Davíðsdóttir

Sigrún er fædd 31. október 1955. Hún er norrænufræðingur að mennt og hefur lengi verið búsett erlendis, fyrst í Kaupmannahöfn frá 1988, þar sem hún stundaði rannsóknir á handritamálinu, en flutti árið 2000 til Lundúna. Hún er útvarpshlustendum að góðu kunn fyrir pistla sína í Speglinum, fréttaskýringarþætti í útvarpi RÚV, og í morgunútvarpi Rásar 1. Sigrún fjallaði á sínum tíma mikið um mál sem tengjast efnahagshruninu 2008 og hefur skrifað ótal greinar í blöð og tímarit, íslensk og erlend. Hún var fréttamaður ársins hjá RÚV árið 2009.

Í viðbót við þrjár matreiðslubækur og bók um brjóstagjöf og barnamat hefur Sigrún sent frá sér skáldsögur. Sú fyrsta var barnabók um týndan fjársjóð Egils Skalla-Grímssonar. Skáldsagan Feimnismál kom út 2006 og er fjallar um óvæntar kenndir, ómótstæðilegt aðdráttarafl og þær hindranir sem hugurinn býr til. Samhengi hlutanna, 2011, er spennusaga um umsvif íslenskra auðmanna á erlendri grund með hrunið í bakgrunni.

Aðspurð í viðtali í Mbl. 2006 um Feimnismál segir Sigrún: 

„Þegar flutt er frá heimalandinu kynnist maður tveimur löndum, landinu sem maður flytur til - og heimalandinu, af því að maður fer að sjá það utan frá. Smám saman fer maður að draga dám af nýja staðnum, án þess að glata sínum upprunalega kjarna. Íslenski kjarninn er um margt sérstakur, við erum yfirleitt mótaðri af náttúrunni en nágrannaþjóðirnar, oft eitthvað hrátt og ögn frumstætt í okkur. Mig langaði að skrifa um þetta og um tengslin við móðurmálið - en líka um ástina.

Ótrúlega mikið af samtímabókmenntum og bíómyndum um ástina er gert af ungu fólki, eða út frá sjónarhorni þess. Ég man eftir að koma úr bíói fyrir nokkrum árum, hafði séð mynd eftir ungan leikstjóra, og hugsa með mér að mikið væri ég orðin þreytt á að láta krakka fræða mig um ástina. Með fullri virðingu fyrir æskunni þá eru þær vangaveltur oft ögn grunnhyggnar eins og eðlilegt er því það vantar slangur af árum upp á og þá útsýn og yfirsýn sem árin gefa. Ég ætla sannarlega ekki að halda því fram að ég hafi komist að niðurstöðu - bókin er ekki samsafn niðurstaðna - en mér finnst lífið snúast um að finna sér ánægju og gleði í lífinu án þess að ætlast til eða búast við að önnur persóna sé uppistaðan þar. Ástin er eins og munaður - himneskt að finna hana en það er hægt að lifa góðu lífi án hennar. Og já, ástin er líka munaður að því leyti að hún er ekki neitt sem við eigum kröfu á“


Ritaskrá

  • 2011 Samhengi hlutanna
  • 2006 Feimnismál
  • 1989 Silfur Egils
  • 1987 Pottarím
  • 1982 Brjóstagjöf og barnamatur
  • 1980 Matur, sumar vetur vor og haust
  • 1978 Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1990 Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir Silfur Egils