SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigrún Elíasdóttir

Sigrún Elíasdóttir er fædd árið 1978 og uppalin á Ferjubakka 4 í Borgarfirði. Foreldrar hennar stunduðu að hluta til sauðfjárbúskap og Sigrún hefur alltaf verið gefin fyrir hverskyns skepnur. Frá 6 til 16 ára aldurs gekk hún í heimavistarskólann á Varmalandi í Borgarfirði. Eftir þá dvöl tóku við hinir ýmsu framhaldsskólar áður en konan útskrifaðist úr menntaskóla í Noregi árið 1999, þá orðin 21 árs gömul og þótti sjálfri vera afar hár aldur. Hún hélt upp á áfangann með gamaldags interrail lestarferðalagi með æskuvinkonu sinni þar sem heimsóttar voru helstu borgir Evrópu enda var enn nýjung fólgin í því að fara til nýfrelsaðrar Austur Evrópu á þeim tíma.

Haustið 2000 hóf hún að stunda nám við Háskóla Íslands og henni líkaði borgarlífið merkilega vel þótt hún hafi alltaf vitað að þar væri ekki hægt að búa til frambúðar. Eftir mjög svo hagnýta BA gráðu í sagnfræði var komið að giftingu á einhverjum náunga sem hún pikkaði upp í náminu. Starfaði við kennslu sem leiðbeinandi á Þingeyri í tvo vetur eftir það og lærði mikið á þeim tíma; a) að unglingar eru bæði skemmtilegasta og leiðinlegasta fólk sem maður kynnist, b) að Vestfirðir eru stórkostlegur staður – þangað til fer að snjóa og c) að kennsla væri ekki framtíðarstarf fyrir Sigrúnu. Þá var tími kominn til að grafa holu og byggja hús í gömlu sveitinni og festa sig í Paradís að eilífu.

Eitt sveinbarn kom í heiminn árið 2006. Vinna í Safnahúsi Borgarfjarðar sem munavörður með umsjón yfir náttúru-, lista- og byggðasafni var afar góður tími. En smám saman kom í ljós að hinar ýmsu gigtir og annar eymingjaskapur hrjáðu konuna orðið af svo miklum mæli að hún ákvað að leggja fasta vinnu á hilluna enda ofmetið að vakna fyrir hádegi. Annað sveinbarn kom í heiminn haustið 2011. Sigrún einbeitti sér að því að klára MA námið í sagnfræði sem hún var farin að dufla við og útskrifaðist úr því 2012 með sérhæfingu í 20. aldar sögu enda heilluð af öllum stríðsátökum samtímans. Að því loknu var tekin stefna á að vinna að skrifum og sjálfstæðri fræðimennsku. Gaf út fyrstu bókina árið 2013 um alþýðumanninn afa sinn og samband hennar við hann. Að auki skrifaði hún aðeins fyrir Námsgagnastofnun, stundum í samvinnu við eiginmann sinn sem er kennari.

Af algjörri tilviljun heyrði Sigrún á tal ritlistarnema í útvarpsþætti, nokkuð sem hún hafði aldrei vitað að væri hægt að læra á Íslandi. Af rælni sótti hún um og komst inn haustið 2014 og var það eitt af mörgu gæfusporunum í lífi hennar. Námið var stórskemmtilegt og gagnlegt en ekki síst var fólkið þar gulls í gildi, bæði nemendur og kennarar. Útskrift með MA próf í ritlist, enn ein gagnlega gráðan, var í höfn vorið 2017 og nú er ekki eftir neinu að bíða með að fara að slá í gegn. Í Sigrúnu blunda full margar hugmyndir og hún veit ekki hvort hún muni enda á því að skrifa fantasíur fyrir börn eða þjóðlegan fróðleik fyrir eldri borgara. Það gæti orðið áhugaverð blanda...


Ritaskrá

  • 2023 Höllin á hæðinni
  • 2020 Ferðin á heimsenda: Týnda barnið
  • 2019 Ferðin á heimsenda: Leitin að vorinu
  • 2015 Villta vestrið. Þemahefti í samfélagsfræði um sögu Norður Ameríku fyrir miðstig grunnskóla.   Unnið í samvinnu við Ívar Örn Reynisson kennara.
  • 2015 Rómanska Ameríka. Þemahefti í samfélagsfræði um sögu Rómönsku Ameríku fyrir miðstig grunnskóla. Unnið í samvinnu við Ívar Örn Reynisson kennara. Kom út hjá Menntamálastofnun 2017.
  • 2014 Ferðir Ódysseifs, endursögn úr Hómerskviðum. 2014. Kötturinn seinheppni. Barnabók, einnig myndskreytt af höfundi.
  • 2014 Nýjasta tækni og vísindi. Þemahefti í samfélagsfræði um uppfinningar og tækninýjungar á 20. öld fyrir miðstig grunnskóla. Unnið í samvinnu við Ívar Örn Reynisson kennara.
  • 2013 Kallar hann mig, kallar hann þig – í leit að afa. Ævisaga um torf og grjóthleðslumanninn Jóhannes Arason.