SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigurunn Konráðsdóttir

Sigurunn Klemensína var fædd á Kurfi undir Brekku á Skagaströnd hinn 22. ágúst 1917. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði 18. desember 1998. Foreldrar hennar voru bæði hagmælt. Móðurættir Sigurunnar voru frá Vestfjörðum og Breiðafirði og föðurættir úr Húnavatnssýslum og Skagafirði.

Sigurunn bjó alla sína búskapartíð í Hafnarfirði. Fyrri maður Sigurunnar var Guðmundur Guðmundsson, smiður og sjómaður, og áttu þau  sex börn á tíu árum. Síðari maður Sigurunnar var Guðni Bjarnason frá Flatey á Breiðafirði, vélstjóri og síðar sundlaugarvörður. Þau giftust 1949 og bjuggu á Hverfisgötu 28 í Hafnarfirði.

Sigurunn var skáld gott og birtust eftir hana mörg ljóð og kvæði í bókum og tímaritum og hún sendi frá sér ljóðasafn þremur árum en hún lést. Auðunn Bragi Sveinsson ritaði aðfararorð og fjallaði um skáldskap hennar.

Sigurunn orti m.a. svo:

Ef allir unna frelsi og frið

að fögrum listum hyggja

menntun sönn og mannkostir

munu löndin byggja.

Og þetta fallega ljóð sömuleiðis:

Ó, elsku mamma, höndin þín,

hve hlý hún var og góð.

Þá hélstu litla lófa í

og laukst upp hjartans sjóð.

Glæddir okkar gleði leik,

gældir lokka við.

Við áttum marga yndisstund

svo oft við þína hlið.

Nú hefur Kristur kallað á þig

að koma heim til sín.

Hans ljúfa náð og líknarmund

læknar meinin þín.

Á kveðju stund við krjúpum hljóð

við krossinn helga hans

og biðjum hann að bera þig

til hins bjarta vonar lands.


Ritaskrá

  • 1995 Úr sjóði minninganna (ljóð)