SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sólveig Kr. Einarsdóttir

Sólveig Kristín Einarsdóttir er fædd í Reykjavík 24. nóvember 1939. Foreldrar hennar voru Einar Olgeirsson og Sigríður Þorvarðsdóttir og ólst Sólveig upp í Norðurmýrinni. Hún varð stúdent frá MR árið 1959 og lauk BA prófi frá HÍ í dönsku, sögu, kennslu- og uppeldisfræðum. Sólveig var framhaldsskólakennari, fyrst við gagnfræðadeildir Vogaskóla og síðan Menntaskólann við Sund til ársins 1990. Hún tók þátt í útgáfu ýmis námsefnis í dönsku fyrir Námsgagnastofnun Ríkisins ásamt orðabók í dönsku.

Sóveig fór í örlagaríka hópferð til Grikklands árið 1988 þar sem hún hitti seinni eiginmann sinn á grísku eyjunni Hydra. Í kjölfarið fluttist hún búferlum til Nýju Suður Wales í Ástralíu árið 1990. Þar stundaði hún ritstörf og nautgriparækt jöfnum höndum.

Sólveig hefur skrifað fjölda greina um Ástralíu, lýst staðháttum og stjórnmálaástandi þar og auk þess sagt frá ferðalögum um Indónesíu, Kína, Japan og Nýja Sjáland. Hún skrifaði fyrst í Þjóðviljann, Vikuna og fleiri tímarit og síðan í Morgunblaðið og Lesbók Morgunblaðsins.

Sólveig fékk verðlaun Almenna bókafélagsins árið 1991 fyrir Sögur Sólveigar sem hefur að geyma sextán smásögur.

Sólveig hefur sent frá sér smásagnasafn og fjórar barnabækur, auk minningabókar um föður sinn. Þá hefur hún einnig birt sögur og ljóð í blöðum og tímaritum.

Sólveig á tvö börn, Eddu og Einar frá fyrra hjónabandi. Barnabörnin eru fimm.


Ritaskrá

2017    Amma, ég er hræddur

2016    Amma í ástralskri sveit

2005    Hugsjónaeldur. Minningar um Einar Olgeirsson

1999    Amma mín kann að fljúga

1997    Snædís í Sólskinslandinu

1991    Sögur Sólveigar

Verðlaun og viðurkenningar

1991    Verðlaun Almenna bókafélagsins fyrir Sögur Sólveigar