SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steingerður Guðmundsdóttir

Steingerður Guðmundsdóttir fæddist 12. október 1912 á Ísafirði og voru foreldrar hennar Guðmundur Guðmundsson skólaskáld og Ólína Þorsteinsdóttir.

Steingerður bjó í Reykjavík frá árinu 1913 og nam höggmyndalist hjá Einari Jónssyni myndhöggvara árin 1931 til 1933 eftir að hafa sótt einkatíma í íslensku og erlendum málum. Hún var í leikskóla Lárusar Pálssonar frá 1940 til 1942 og hélt síðan í framhaldsnám í leiklist í New York þar sem hún dvaldi frá 1943 til 1946. Fyrsta árið þar nam hún við The American Academy of Dramatic Arts og tvö síðari árin ballett og látbragðsleik í rússneskum einkaskóla. Síðar kynnti hún sér einnig leiklist í Svíþjóð og Bretlandi. Sérgrein hennar var einleikur og las hún upp og lék einleik í útvarpi í um þrjá áratugi. Hún fékk áhuga á einleik sem listformi á námsárum sínum, ekki síst fyrir áhrif kennara síns, Rússans Theodors Kommissarjevskís. Hann fræddi hana um tilraunir landa síns Nicolajs Evreinoffs með einleikinn eða „mónódramað“. Evreinoff var uppi á fyrri hluta tuttugustu aldar og einn af helstu framúrstefnumönnum Rússa í leiklist. Þegar Steingerður var komin aftur til Íslands kynnti hún einleikinn á sérstakri sýningu í Iðnó vorið 1947. Skrifaði Halldór Laxness vinsamlegan dóm um þá sýningu.

Steingerður samdi bæði leikrit og ljóð og var leiklistargagnrýnandi 1956-1960 og eru dómar hennar merk heimild um leiklistarstarfsemi þeirra tíma. Hún var beinskeytt og skelegg í dómum sínum sem bera þess vott að það er smekkvís fagmaður sem heldur um penna.

Steingerður var ógift og barnlaus. Hún lést á sjúkrahúsi í Reykjavík árið 1999. 

Árið 2004 kom út úrval ljóða Steingerðar: Bláin (JPV, 2004). Í formálsorðum Höllu Kjartansdóttur segir svo: „Steingerður fyllir flokk módernista í ljóðagerð sinni en hún tilheyrði jafnframt þeirri kynslóð listakvenna sem þurfti að berjast talsvert fyrir því að njóta viðurkenningar til jafns við karla (...) Ljóð hennar bera vott um viðkvæma lund, trúarþörf og hrifnæmi, þau eru hófstillt og laus við beiskju og hinn óhefti leikur með ljóðformið vitnar bæði um listræna dirfsku og leitandi hug.“

Heimild: Mbl., Leikminjasafn Íslands


Ritaskrá

  • 2004  Bláin (ljóðaúrval)
  • 1997  Vindharpan (prósaljóð)
  • 1995  Kvak
  • 1985  Fjúk
  • 1980  Log 
  • 1976  Kvika
  • 1974  Börn á flótta (einleiksþættir með teikningum eftir Jóhannes Kjarval9
  • 1972  Blær
  • 1969  Strá 
  • 1955  Nocturne, leikrit
  • 1952  Rondo (leikrit, flutt í útvarp 1956)