SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Refsdóttir

Steinunn Refsdóttir (eða Dálksdóttir) var íslensk skáldkona sem uppi var undir lok 10. aldar. Hún var dóttir Refs mikla, sem Landnáma segir að hafi búið í Brynjudal, og konu hans Finnu Skaftadóttur, sonardóttur landnámsmannsins Þórðar gnúpu. Maður Steinunnar var Gestur Björnsson, Helgasonar Hrólfssonar goða í Hofgörðum, sonar Hrólfs digra Eyvindarsonar landnámsmanns. Sonur þeirra var Hofgarða-Refur eða Skáld-Refur Gestsson.

Tvær dróttkvæðar vísur eftir Steinunni eru varðveittar í Kristni sögu, Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu og Brennu-Njáls sögu. Í Njáls sögu segir frá því þegar trúboðinn Þangbrandur var á ferð um Vesturland og Steinunn kom á móti honum, boðaði honum heiðni en hann tók svo til andsvara og „sneri því öllu er hún hafði mælt í villu“. Steinunn spurði hvort hann hefði heyrt að Þór hefði skorað Krist á hólm en Kristur ekki þorað að berjast. Þangbrandur svaraði að hann hefði heyrt að Þór væri ekki nema mold og aska. Steinunn spurði hvort Þangbrandur vissi hver brotið hefði skip hans og fór síðan með tvær vísur þar sem hún sagði Þór hafa valdið skipbrotinu. Eftir það skildu þau og fór Þangbrandur vestur á Barðaströnd með fylgdarliði sínu.

Braut fyrir bjöllu gæti,

bönd ráku val strandar,

mögfellandi mellu,

mástalls, Vísund allan.

Hlífðit Kristr, þá er kneyfði

knörr, málmfeta varra.

Lítt ætla eg að guð gætti

Gylfa hreins að einu.

Þór brá Þvinnils dýri

Þangbrands úr stað löngu,

hristi búss og beysti

barðs og laust við jörðu.

Muna skíð um sjá síðan

sundfært Atals grundar,

hregg því að hart tók leggja,

hánum kennt, í spánu.

Steinunn var rammheiðin en skáld gott og hikaði ekki við að standa uppi í hárinu á kristniboða Ólafs konungs. Kerling og kennimaður skiptu um hlutverk því Steinunn reyndi að sannfæra kristniboðann um mátt og megin heiðnu goðanna. Í vísunni kallar hún Þangbrand bjöllu gæti sem er heldur háðuleg kenning um guðsmanninn. Steinunn er ágætt skáld en sjónarhorn hennar er annað en karla sem áttu kost á að fara utan og gerast hirðskáld konunga. Kenningin bjöllu gætir sýnir þó að hún, eins og þeir, gerði ráð fyrir að áheyrendur þekktu tungutak dróttkvæða og þann hugmyndaheim sem þar bjó að baki. Steinunn, eins og önnur skáld, leikur sér að tungumálinu með óvæntum tengingum milli hins háleita og hversdagslega (1).

Kveðskapur Steinunnar er nær eina dæmið um kveðskap heiðinnar konu sem varðveist hefur; tvær dróttkvæðar vísur, myndrænar og taktfastar (2).

(1) sbr. Valgerður Erna Þorvaldsdóttir 2004

(2) Old Norse Women´s Poetry


Ritaskrá

  • Tvær dróttkvæðar vísur