SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Svanhildur Þorsteinsdóttir

Svanhildur Þorsteinsdóttir fæddist 17. nóvember 1905 í Reykjavík, dóttir Þorsteins Erlingssonar skálds og seinni konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Svanhildur var aðeins níu ára þegar faðir hennar lést en vinir og aðdáendur skáldsins héldu tryggð við ekkjuna og voru skáld og listamenn tíðir gestir á heimilinu alla tíð. Ragnar í Smára lýsir því á eftirfarandi hátt: „Á heimili Guðrúnar Erlings var mikið leikið á hljóðfæri, rætt um bókmenntir af miklum hita, trúmál, heimspeki og stjórnmál. Ég efast um að nokkur háskóli hafi haft upp á meiri og fjölbreyttari menningaráhrif að bjóða en heimili Guðrúnar Erlings í Þingholtsstræti 33.“

Svanhildur naut ágætrar menntunar bæði heima og erlendis. Hún lærði að spila á píanó og hafði góða söngrödd. Hún hafði mikinn áhuga á leiklist og 12 ára gömul lék hún í leikritinu Óla smaladreng, sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi, og síðar lék hún í leikritunum Ímyndunarveikinni og Nýársnóttinni. Þá lék hún í kvikmyndinni Ævintýri Jóns og Gvendar, sem var fyrsta kvikmynd Lofts Guðmundssonar, frumsýnd árið 1923 í Nýja Bíói. Svanhildur þótti mjög fögur og sat hún fyrir hjá málurum og ljósmyndir af henni prýddu póstkort.

Svanhildur stundaði nám í París í frönsku og frönskum bókmenntum og tók kennarapróf í frönsku. Hún kenndi málið í einkatímum um árabil. Auk þess dvaldi hún í Svíþjóð og hafði bæði sænsku og ensku á valdi sínu. Svanhildur starfaði á skrifstofu alþingis í tólf ár frá árinu 1929. Sama ár kynntist hún Sæmundi Stefánssyni og gengu þau í hjónaband árið 1932. Þau eignuðust tvo syni, Þorstein og Stefán, með ellefu ára millibili. Svanhildur átti sæti í stjórn Rithöfundasambands Íslands sem og í stjórn PEN-félags Íslands frá stofnun þess.

Svanhildur byrjaði ung að skrifa og þegar hún var átján ára las hún sögu eftir sig opinberlega, á barnadagskrá sem haldin var á sumardaginn fyrsta 1923. Sögur eftir Svanhildi birtust í tímaritinu Eimreiðin, sem og tímaritinu Dropar, 1. hefti 1927, þar sem birtur var skáldskapur kvenna. Aðeins ein bók eftir Svanhildi kom út meðan hún lifði, Álfaslóðir, sem hefur að geyma níu smásögur og þrjú ævintýri og kom út árið 1943. Sögurnar í Álfaslóðum bera vott um færni Svanhildar í meðferð skáldskaparmáls, textinn er víða ljóðrænn og lipurlega skrifaður. Best nýtur stíllinn sín í ævintýrunum. Efni sagnanna er ástin sem er lýst á rómantískan hátt og mikið gert úr takmarkalausu afli ástarinnar.

Magnús Ásgeirsson skáld og þýðandi fjallaði um Álfaslóðir Svanhildar í Helgafelli, 3. árg. 1944 og harla kaldranalegur í ritdómi sínum: 

„Smásögur og ævintýri Svanhildar Þorsteinsdóttur, Álfaslóðir, bjóða af sér góðan þokka; þar gætir hreinlætis og hófsemi í búningi, en ástríðumagni skáldlegrar köllunar að baki sögunum virðist einnig í hóf stillt. Vafalaust má þó búast við mætavel gerðum smásögum frá Svanhildi, þegar hún hefur gert sér ljósari grein fyrir byggingarlögmálum þeirra, og til þess ber ekki að vantreysta henni. Hún ætti t. d. að gæta þess betur eftirleiðis að fleyga ekki frásögnina til lýta með upprifjun liðinna atburða, og henni þarf að lærast að vanda betur til söguloka en henni virðist sýnt um ennþá. Niðurlag sögunnar Morgunsól og nokkrar síðustu málsgreinamar í sögunni Á flugvellinum eru skýr dæmi þess, að skáldkonunni hafa ekki ávallt verið hugstæð þau sannindi, að í skáldskap, og þá ekki sízt smásögum, er allt, sem án má vera, frá hinum vonda, hversu velmeint og dagsatt sem það er í eðli sínu. Aldarandinn er víst fremur óhagstæður ævintýraskáldskap, og virðist sá hluti bókarinnar hafa goldið þess nokkuð samkvæmt stillilögmálinu.“

Lengi vel voru Svanhildi eignaðar tvær bækur til viðbótar í skrám á bókasöfnum en það stafaði af því að henni var ruglað saman við nöfnu hennar sem skrifaði undir skáldanafninu Svana Dún. Árið 2015 kom út annað smásagnasafn eftir Svanhildi, Veðrabrigði, en í því eru tólf smásögur sem allar höfðu legið óbirtar í handriti frá andláti Svanhildar árið 1966. Bókinni lýkur með endurminningu frá barnsaldri.

Svanhildur Þorsteinsdóttir lést 26. desember árið 1966. Skáldkonan Margrét Jónsdóttir orti um hana minningarljóð sem birtist í Nýju kvennablaði, 28. árg., 6. tbl., 1967.

 

Heimildir

Þorsteinn Sæmundsson. „Móðir mín.“ Erindi birt á vefsíðunni: http://halo.internet.is/grund.html

Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík: Mál og menning 1987.

Víglundur Möller. Minningarorð um Svanhildi Þorsteinsdóttur í Morgunblaðinu 30. desember 1966, bls. 10.


Ritaskrá

  • 2015    Veðrabrigði
  • 1943    Álfaslóðir