SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Una Þ. Árnadóttir

Una Þorbjörg Árnadóttir fæddist á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal 28. maí 1919, elst þriggja systkina. Hún fluttist með foreldrum sínum á Sauðárkrók árið 1964. Hún ólst upp við venjuleg sveitastörf, settist aldrei á skólabekk en las námsefni heima með aðstoð föður síns. Það þótti vera menningarbragur á æskuheimili hennar og framúrskarandi gestrisni, þar voru um langan tíma til húsa bækur Lestrarfélags Hólahrepps. Una vann allt sitt líf sem verkakona á Sauðárkróki.

Þegar stundir gáfust frá vinnu, var yndi Unu að grípa í bók,hún var vel lesin og kunni sæg af vísum og kvæðum, var hagorð sjálf og átti talsvert af frumsömdum kvæðum í handriti. Hún hóf að skrifa sögur eftir að hún fluttist til Sauðárkróks. Í minningargrein um hana segir m.a. „Sögur Unu verða vart taldar með stórbrotnum bókmenntaverkum, en þær eru gerðar af alúð og skrifaðar á góðu íslenzku máli. I skrifum sínum fjallaði hún einkum um það líf og umhverfi, sem hún þekkti til af eigin raun, líf sveitafólks á fyrri tíð og líf verkafólks í kaupstað.“

Eftir hana liggja skáldsögurnar Bóndinn í Þverárdal (1964) og Enginn fiskur á morgun (1969). Einnig birtust eftir hana smásögur og ljóð og framhaldssögur í tímaritinu Heima er bezt.

Una var ógift og barnlaus. Hún lést að heimili sínu, Ægisstíg 6 á Sauðárkróki, 5. febrúar 1982.

Mynd og heimild: Mbl, 20. feb. 1982


Ritaskrá

  • 1969 Enginn fiskur í dag
  • 1964 Bóndinn í Þverárdal