Unnur Þóra Jökulsdóttir
Unnur Þóra Jökulsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1955. Foreldrar hennar voru Áslaug Sigurgrímsdóttir húsmæðrakennari og Jökull Jakobsson skáld. Unnur ólst upp í Reykjavík og Flóanum á víxl.
Unnur Þóra lauk stúdentspróf frá MR og las leikhúsfræði í tvö ár við Kaupmannahafnarháskóla, en hætti námi til að smíða skútu með vini sínum. Í tólf ár bjuggu þau víða og sigldu um heimsins höf á skútunni Kríu. Þetta ævintýri varð hvatinn að hennar fyrstu bók sem hún skrifaði í stílabók, svo á Brother ritvél og loks í glænýrri Mackintosh tölvu. Fyrstu bækur Unnar voru metsölubækurnar Kjölfar Kríunnar og Kría siglir um Suðurhöf sem segja frá margra ára siglingum hennar og Þorbjörns Magnússonar á skútu um heimsins höf.
Næsta bók Unnar Þóru var barnabókin Eyjadís þar sem hún heldur sig við frásagnarmáta ferðasögunnar. Myndskreytingar í bókina gerði Guðjón Ketilsson og var hún valin best myndskreytta bók ársins.
Þá kom út bókin Íslendingar með Unnur Þóra gerði með ljósmyndaranum Sigurgeiri Sigurjónssyni þar sem þau kanna íslenska þjóðarsál og einblína á samband fólks við umhverfi sitt og náttúru. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2004 og sett var upp stór útisýning með myndum og texta á Austurvelli sem var gríðarvel sótt. Íslendingar kom út á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, frönsku og þýsku, og var endurútgefin árið 2014 í nýju broti.
Í bókinni Hefurðu séð huldufólk fer Unnur um landið og kannar þjóðatrúna um huldufólk í nútímanum. Í bókinni Ísland í allri sinni dýrð tekst hún svo á við að skrifa fræðilegan texta á aðgengilegu máli fyrir hinn almenna lesanda og útskýra sögu Íslands, jarðfræði og náttúrufræði.
Síðasta bók Unnar Þóru, Undur Mývatns, segir frá kynnum hennar af fólki, lífríki og náttúru Mývatnssveitar. Undur Mývatns hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017, Fjöruverðlaunin 2018 og tilnefningu til Hagþenkisverðalaunanna.
Meðfram skrifunum hefur Unnur Þóra unnið fjölbreytta vinnu, hún var móttökustjóri á Hótel Sögu, skrifstofustjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu í árdaga fyrirtækisins, vann hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur að uppbyggingu í Heiðmörk og loks Náttúru-rannsóknastöðinni við Mývatn.
Höfundarverk Unnar Þóru einkennist annars vegar af frásagnarmáta ferðasögunnar og hins vegar af skrifum sem liggja á mörkum veruleika og skáldskapar; þ.e. umfjöllunarefni sitt sækir hún í raunveruleikann en notar gjarnan skáldlegar aðferðir til að koma efninu til skila.
Í síðustu bókum sínum helgar hún sig náttúruskrifum; í bókunum Ísland í allri sinni dýrð og síðustu bók sinni Undur Mývatns færir hún sig inn á svið náttúrunnar og beitir þessum verkfærum til að ná fram frásögnum um lífríki, náttúru og jarðsögu svo úr verður lifandi og léttur texti með miklum fróðleik sem kemst vel til skila til hins almenna lesanda. Þó hún sæki í fræðslubrunna vísindamanna bætir hún alltaf við eigin athugunum og upplifunum. Inn í texta sinn vefur hún persónulegar sögur, hugleiðingar og viðtöl og frásagnir af öðru fólki. Hún skyggnist aftur í tímann og horfir til framtíðar.
Það er Unni Þóru hjartans mál að auka náttúrulæsi fólks og vera talsmaður náttúru og lífríkis í öllum sínum fjölbreytileika í gegnum verk sín. Hrífa lesandann með sér í náttúruupplifun og landslagsskoðun og miðla þeirri ást og virðingu sem hún ber í garð náttúrunnar.
Unnur Þóra er gift Árna Einarssyni líffræðingi og á eina dóttur. Fjölskyldan býr í Reykjavík á veturna en við Mývatn á sumrin.
Ritaskrá
- 2017 Undur Mývatns: Um fugla, flugur, fiska og fólk
- 2012 Ísland í allri sinni dýrð (ljósmyndir Erlend Haarberg og Orsolya Haarberg)
- 2007 Hefurðu séð huldufólk?
- 2004 Íslendingar (ljósmyndir Sigurgeir Sigurjónsson)
- 2003 Eyjadís
- 1993 Kría siglir um Suðurhöf (meðhöf. Þorbjörn Magnússon)
- 1989 Kjölfar kríunnar (meðhöf. Þorbjörn Magnússon)
Verðlaun og viðurkenningar
- 2018 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Undur Mývatns
- 2017 Fjöruverðlaunin fyrir Undur Mývatns
Tilnefningar
- 2018 Til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir Undur Mývatns
- 2004 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Íslendinga
Þýðingar
Þýðingar á verkum Unnar:
- 2020 Underet Mývatn : om fugler, fluer, fisk og folk (Tone Myklebost þýddi á norsku)
- 2019 Het geheim van het Mývatn-meer (Kim Middel þýddi á hollensku)
- 2019 Vom Flügelschlag des Sterntauchers: das verborgene Leben am See Mývatn (Tina Flecken þýddi á þýsku)
- 2014 Auf den spuren der unsichtbaren: eine Reise zu den Sehenden (Benedikt Grabinski þýddi á þýsku)
- 2013 L´Islande : éclat et magnificence (Gérard Lemarquis þýddi á frönsku)
- 2012 Island : in all seiner Pracht (Richard Kölbl þýddi á þýsku)
- 2004 Icelanders (Victoria Ann Crabb þýddi á ensku)
- 2004 Islandais (Henri A. Pradin þýddi á frönsku)
- 2004 Isländer (Karl-Ludwig Wetzig þýddi á þýsku)
Þýðingar Unnar:
- 1990 Utz eftir Bruce Chatwin