SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Valborg Bentsdóttir

Valborg Bentsdóttir er fædd 24. desember 1911 á Bíldudal. 

Valborg lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1934. Hún hafði mikinn áhuga á tungumálum og stundaði málanám hjá Námsflokkum Reykjavíkur, Málaskólanum Mimi, Alliance francaise og víðar. Veturinn 1971 og 1972 var hún við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð.

Valborg vann margvísleg störf, svo sem skrifstofu-, verslunar- og kennslustörf, en lengst af vann hún hjá Veðurstofu Íslands við veðurathuganir, kortagerð, ritstjórn og sem skrifstofustjóri.

Valborg gerði marga þætti fyrir útvarp. Hún annaðist fastan þátt í Ríkisútvarpinu, Hin gömlu kynni, á árunum 1974-79. Í minningargrein um hana eftir Gerði Steinþórsdóttur kemur fram að hún hafði gert skrá yfir bækur eftir konur frá árinu 1800 til 1956.

Valborg var varabæjarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1958-62 og átti sæti í ýmsum opinberum nefndum. Hún var varaformaður Starfsmannafélags ríkisstofnana 1950-57 og tók þátt í störfum BSRB. Valborg var í miðnefnd Samtaka hernámsandstæðinga 1960-62. Hún var í stjórn Kvenréttindafélags Íslands og í framkvæmdanefnd kvennafrídagsins 24. október 1975.

Valborg giftist Eiríki Baldvinssyni frá Grenjum á Mýrum 1936. Þau skildu árið 1957.

Valborg var ein þeirra þriggja kvenna sem ritstýrðu og gáfu út tímaritið Emblu. Hún starfaði mikið að jafnréttismálum og skrifað um þau greinar í blöð og flutt erindi í útvarp.

Valborg byrjaði ung að skrifa. Fyrsta sagan sem birtist eftir hana á prenti var ,,Á gámlárskvöld", í skólablaði Kennaraskólans 1933. Þá sögu endurbætti hún seinna og sendi i verðlaunasamkeppni Þjóðviljans 1940, og hlaut sagan verðlaunin. Á fimmta áratugnum birtust svo smásögur eftir hana í Vikunni, Melkorku og Emblu, og síðan birtust öðru hverju sögur eftir hana í tímaritum.

Eftir Valborgu hefur aðeins komið út ein bók, Til þín, 1962. Þar eru sjö smásögur og 36 ljóð, bæði í hefðbundnu og frjálsu formi. Ljóðin eru öll ástarljóð til karlmanna og er bókin að því leyti einstök i sinni röð. Smásögurnar í bókinni skrifaði Valborg allar á sjötta áratugnum, utan eina sem skrifuð var 1942 og birtist i Emblu 1949. Þær eru allar haganlega gerðar og bera ótvirætt listrænt yfirbragð.

Valborg skrifar um ástina; gleðina og vonbrigðin sem henni fylgja. Mynd hennar af hjónabandinu er dökk; svik, niðurlæging og kuldi tengist því í nokkrum sagnanna. 

Smásaga Valborgar „Tveggja saga" hefur birst í tveimur safnritum með sögum kvenna:  Pennaslóðum, sem Halldóra B. Björnsson ritstýrði og kom út 1959, og Sögum íslenskra kvenna 1879-1960 sem Soffía Auður Birgisdóttir ritstýrði og kom út 1987.

Valborg lést árið 1991 á heimili sínu í Reykjavík.


Ritaskrá

  • 1962  Til þín

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1940  Verðlaun í smásagnasamkeppni Þjóðviljans

 

Tengt efni