Þóra Hjörleifsdóttir
Þóra Hjörleifsdóttir er fædd árið 1986. Hún er með meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands.
Þóra sendi frá sér fyrstu skáldsöguna, Kviku, í febrúar 2019. Kvika fjallar um mörk og markaleysi í sambandi ungs pars á nístandi sáran og ljóðrænan máta. Sagan vakti mikla athygli og fékk góða dóma. Hér má lesa ritdóm á Skáld.is.
Kvika var þýdd á ensku (Magma) og vakti mikla athygli. Bókin var sett á lista Time Magazine yfir 36 bækur sem tímaritið mælti með sem sumarlesningu og Oprah Winfrey sem setti hana á lista sinn yfir áhugaverðar þýddar bækur frá öllum heimshornum.
Þóra er meðlimur í rithöfundakollektívinu Svikaskáldum og hefur gefið út nokkrar bækur með þeim. Skáldsaga Svikaskálda Olía var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021. Með Svikaskáldum hefur Þóra einnig tekið þátt í að skrifa og gefa út bækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd (2017), Ég er fagnaðarsöngur (2018) og Nú sker ég netin mín (2019).
Þóra skrifaði ljóðabálkinn Eftirvæntingu í félagi við Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur og kom hann út 2021. Hér má lesa ritdóm um hann.
Ljóð Þóru hafa meðal annars birst á vefsíðunni Starafugli.
Þóra hefur einnig gert áhugaverða þætti fyrir útvarp og hlaðvarp, til dæmis um mæðraveldi (2017) og árið 2021 gerðu Þóra og Halla Ólafsdóttir saman hlaðvarpsþáttaröðina Leitina, sem fjallaði um áratuga leit að hinu heilaga grali á hálendi Íslands.
Þóra starfar sem íslenskukennari í Sjálandsskóla í Garðabæ.
Ritaskrá
- 2021 Eftirvænting (með Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur)
- 2021 Olía (með Svikaskáldum)
- 2019 Kvika
- 2019 Nú sker ég netin mín (með Svikaskáldum)
- 2018 Ég er fagnaðarsöngur - ljóðverk (með Svikaskáldum)
- 2017 Ég er ekki að rétta upp hönd - ljóðverk (Með Svikaskáldum)
Tilnefningar
- 2021 Tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Olíu (með Svikaskáldum)
Þýðingar
- 2021 Magma (Megan Alyssa Matich þýddi á ensku)