SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þórunn Magnea Magnúsdóttir

Þórunn Magnea Magnúsdóttir er fædd 1945. Foreldrar hennar eru Magnús Vilmundarson og Magnea Bergmann. Hún ólst upp í hópi fjögurra systkina. Þórunn Magnea býr í Reykjavík og á tvö uppkomin börn.

Þórunn Magnea lék Línu langsokk þegar hún var unglingur og það varð henni hvatning til að fara að læra leiklist. Hún var í Leiklistaskóla Ævars Kvaran og stundaði hefðbundið skólanám á kvöldin í skóla KFUM og K til að geta helgað sig leiklistinni á daginn. Fimmtán ára var hún komin í leiklistarskóla Þjóðleikhússins á undanþágu, frá 16 ára aldurstakmarkinu sem þar var. Eftir það lék hún aukahlutverk í nokkrum leiksýningum, en ferillinn komst á skrið þegar hún var 18 ára gömul og nýútskrifuð og lék Ófelíu í Hamlet, á móti Gunnari Eyjólfssyni. Leiðin lá síðan í leiklistarskóla í París í Frakklandi þar sem hún var í tvö ár. Hún byrjaði að leika í Þjóðleikhúsinu þegar hún kom aftur heim og lék þar til ársins 1992.

Eftir að Þórunn Magnea hætti í Þjóðleikhúsinu, hélt hún áfram að vinna að leiklist á öðrum vettvangi. Hún setti upp leiksýningar hjá áhugaleikfélögum á landsbyggðinni og í Færeyjum og gekk til liðs við Svein Einarsson sem stofnaði leikhópinn Bandamenn sem og sýndi leikverk á Norðurlöndunum, í nokkrum Evrópulöndum, Kanada og Suður-Kóreu.

Þórunn Magnea starfar með hópi leikhúslistakvenna sem eru komnar yfir fimmtug og hafa flutt leiklestra og ljóðaupplestur í Iðnó og Hannesarholti.

Þórunn Magne hefur leikið töluvert í kvikmyndum. Hún lék í Mýrinni, Roklandi og LX. Einnig hefur hún leikið í milli 10 og 12 stuttmyndum hjá nemendum í Kvikmyndaskóla Íslands og kvikmyndadeild Framhaldsskólanna og hlaut hún heiðursverðlaun á kvikmyndahátíð Framhaldsskólanna.

Þórunn Magnea hefur gefið út eina ljóðabók og aðra með sögum og ævintýrum. Þá hefur hún einnig þýtt nokkur leikrit úr frönsku.

Heimildir

Án höf, „Ófelía er orðin sjötug“, grein á https://lifdununa.is/grein/ofelia-ordin-sjotug/ (skoðað 13. apríl 2019)

Myndin af Þórunni Magneu er tekin af vefsíðunni kvikmyndvefurinn.is


Ritaskrá

  • 1962    Morgunregnið (ljóð)
  • 1962    Sögur og ævintýri

Verðlaun og viðurkenningar

Heiðursverðlaun á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Þýðingar

  • án árs  Lokaðar dyr eftir Jean-Paul Sartre (leikrit)
  • án árs  Mannlega röddin eftir Jean Cocteau (leikrit)
  • án árs  Tvöföld ótryggð eftir Pierre Carlet Marivaux (leikrit)