SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Berglind Ósk Bergsdóttir

Berglind Ósk Bergsdóttir er fædd árið 1985.

Berglind Ósk lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Kópavogi 2005 og B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 2010. Hún stundaði einnig meistaranám í ritlist við HÍ.

Berglind Ósk á sögu í smásagnasafninu Þægindarammagerðin (2021). Hún gaf út ljóðabókina Berorðað árið 2016 og ritstýrði jólabók Blekfjelagsins, Heima (2020), auk þess að eiga örsögu í þeirri bók, sem og Hefðum árinu áður.

Smásögur, ljóð og þýðingar hafa birst eftir Berglindi Ósk í tímaritum og á vefnum. Ljóð hennar, Hlutskipti, hlaut viðurkenningu í ljóðasamkeppni Júlíönu – hátíð sögu og bóka árið 2021.

Í nóvember 2020 gerði Berglind Ósk útvarpsþáttinn Þrautir þýðandans í samvinnu við Rás 1 í þáttaröðinni Fólk og fræði. Berglind Ósk er einnig reyndur fyrirlesari og hafa fyrirlestrar hennar um loddaralíðan vakið mikla lukku hérlendis sem erlendis.

Meðfram skapandi skrifum starfar Berglind Ósk sjálfstætt sem sérfræðingur í notendamiðaðri textasmíði. Verkefni hennar, 112.is (stafrænt tól í baráttunni við ofbeldi) hlaut verðlaun sem stafræn lausn og vefur ársins á Íslensku vefverðlaununum 2021 en þar má meðal annars lesa eftir hana dæmisögur um faldar birtingarmyndir ofbeldis.


Ritaskrá

  • 2022  Breytt ástand
  • 2021  Loddaralíðan
  • 2021  Þægindarammagerðin (ásamt fleiri höfundum)
  • 2020  Heima (ásamt fleiri höfundum)
  • 2019  Hefðir (ásamt öðrum höfundum)
  • 2016  Berorðað

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2021  Viðurkenning í ljóðasamkeppni Júlíönu – hátíð sögu og bóka fyrir ljóðið Hlutskipti.
  • 2021  Verðlaun fyrir vef ársins og stafræna lausn fyrir verkefnið 112.is.

 

 

Heimasíða

https://berglindosk.is/