SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Gunnlaugsdóttir

Elín Gunnlaugsdóttir er fædd árið 1965.

Elín hefur allt frá því hún var unglingur haft mikinn áhuga á ljóðum og ljóðagerð. Á framhaldsskólaárum hennar birtust nokkur ljóð eftir hana í blöðum og tímaritum. 

Fyrsta ljóðabók Elínar kom út árið 2020 og ber heitið Er ekki á leið - Strætóljóð. Hugmynd að bókinni kviknaði í strætó en Elín, sem býr á Selfossi, starfar í Reykjavík og tekur oft strætó í vinnuna.

Tónsmíðar eru það listform sem Elín hefur lengst af fengist við en þær nam hún á Íslandi og í Hollandi. Hún hefur samið fjölda verka sem flutt hafa verið hér heima og erlendis. Á seinustu tíu árum hefur hún samið fimm tónleikhúsverk fyrir börn. Þeirra þekktast er Björt í sumarhúsi við texta eftir Þórarin Eldjárn sem gefið var út árið 2015. Stytt útgáfa þess verks hefur verið flutt í flestum grunnskólum landins.

Elín hefur gefið út tvö bókverk tengd tónlist sinni og tekið þátt í myndlistarsýningum. Því má segja að í hennar huga renni öll listform saman í eitt og hugmyndirnar sem kvikna finni sér það form sem þeim hentar.

Elín er aðjúnkt við tónlistardeild LHI og kennir þar tónsmíðar, tónfræði og greiningu.

 


Ritaskrá

  • 2020  Er ekki á leið - Strætóljóð.