SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Brynjúlfsdóttir

Guðrún Brynjúlfsdóttir fæddist á Kvígsstöðum í Andakílshreppi í Borgarfirði 28. janúar 1904. Foreldrar hennar voru Brynjúlfur Jónsson og Þórný Þórðardóttir. Systkini Guðrúnar voru Árni f. 1898, Ingvar f. 1901, Sigurður f. 1906 og Þóra Hólmfríður f. 1909.

Guðrún ólst upp á bænum Veiðilæk í Norðurárdal í Borgarfirði, en fluttist níu ára gömul til Borgarness þar sem hún átti heima allt til ársins 1932. Þar lærði hún meðal annars að sauma hjá Árna Bjarnasyni klæðskera. Guðrún fór snemma að vinna fyrir sér, fór fyrst unglingur „í vist“ sem kallað var. Hún var síðar í námi við Hvítárbakkaskóla (1930-1931) og nam söng, framsögn og íslensku. Hún lék á gítar og hafði yndi af að syngja.

Guðrún var rúmföst á Landakotsspítala árin 1935-1939 vegna berkla, en aflaði sér eftir það lífsviðurværis með saumaskap og barnagæslu í heimahúsum þar sem hún var heimilisföst í mislangan tíma, jafnvel svo árum skipti. Hún var alla tíð bindindiskona á vín og tóbak og var á yngri árum virk í ungmennafélagsstarfi. Guðrún giftist ekki og eignaðist ekki afkomendur, en hélt alltaf góðu sambandi við fósturbörnin sín. Hún var vel gefin kona, víðlesin og stálminnug og kunni fyrnin öll af ljóðum og fróðleik utan að. Alla ævina orti hún ljóð og skrifaði sögur og leikrit en það fór ekki hátt.        

Guðrún var öryrki og einstæðingur og hafði aldrei mikið fé milli handa. Árið 1981 fékk hún tryggingabætur vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir og nýtti þær í að gefa út bókina Ýlustrá sem varð hennar eina útgefna verk. Þar er að finna safn ljóða og annarra skrifa. Síðustu árin sín dvaldi Guðrún á elliheimilinu Grund í Reykjavík og lést þar 102 ára gömul 17. mars 2006.

Heimild: Guðrún Jónsdóttir, eitt fósturbarna Guðrúnar Brynjúlfsdóttur.


Ritaskrá

  • 1981 Ýlustrá