SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir er fædd 27. nóvember 1979. Hún er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í fjölmiðlun, samskiptum og mannvísindum frá UAB háskólanum í Barcelona og diplómagráðu í prisma frá Háskólanum á Bifröst. Hólmfríður Helga hefur fjölbreytta reynslu af því að starfa hjá fjölmiðlum á Íslandi en meðal annars hefur hún unnið sem blaðamaður hjá Stundinni og Fréttablaðinu auk þess sem hún starfaði í afleysingum á fréttastofu RÚV um tveggja ára skeið. Þá hefur hún fengist við margvísleg verkefni til dæmis skrifað viðtöl og fréttir fyrir ýmsa prent- og netmiðla, starfað sem kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík og séð um íslenskukennslu í Barcelona.

Árið 2018 sendi Hólmfríður Helga frá sér bókina Amma. Draumar í lit sem hún skrifaði um lífshlaup ömmu sinnar og nöfnu, Hólmfríði Sigurðardóttur. Sagan gefur lesanda innsýn í horfna lífshætti og nútímalíf; reynslu einstaklings en um leið hlutskipti ótal annarra. Í verkinu blandast saman frásagnir langmæðgnanna – tveggja kynslóða – auk þess sem ljóð Hólmfríðar eldri prýða textann.


Ritaskrá

2018 Amma. Draumar í lit