SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kari Ósk Grétudóttir

Kari Ósk Grétudóttir er fædd í Reykjavík 16. janúar 1981.

Kari Ósk útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 en hefur auk þess lært listfræði, kennslufræði og málaralist. Hún hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Kari býr og starfar í Osló þar sem hún kennir börnum og unglingum myndlist á listasafni sem stofnað var af skautadrottningunni og kvikmyndastjörnunni Sonia Henie.

Ásamt Kristínu Eiríksdóttur er Kari höfundur leikritisins Karma fyrir fugla sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2013 í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Á ljóðrænan hátt fjallar verkið um vændi og annað ofbeldi sem samfélagið lætur viðgangast.

Árið 2020 sendi Kari frá sér sína fyrstu ljóðabók, Les birki. Sú bók er þrískipt. Fyrsti hlutinn er titilljóðið „Les birki“, miðhlutinn er þrjátíu ljóða bálkur sem kallast „Ójöfnur á jaðrinum“ en síðasti hlutinn er lokaljóðið „Engin vitni“. „Þetta eru myndræn ljóð sem fjalla um þrengingar, örvæntingu von og tímann. Í einu og sama ljóðinu er í senn hægt að vera á goðsögulegum tíma, deginum í dag og hinum milda morgundegi,“ sagði skáldkonan sjálf um ljóðabók sína.

Kari hefur auk þess birt greinar og texta bæði um myndlist og ljóð í ýmis tímarit.

Heimild: Austurfrétt: https://austurfrett.is/lifid/rithoefundalestin-2020-les-birki-eftir-kari-osk-gretudottur


Ritaskrá

  • 2020  Les birki
  • 2013  Karma fyrir fugla (meðhöfundur Kristín Eiríksdóttir)