SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Oddbjörg Ragnarsdóttir

Oddbjörg Ragnarsdóttir er fædd 3. október árið 1959 í Reykjavík.

Oddbjörg er leikskólakennari að mennt og með BA gráðu í dönsku. Hún bjó og starfaði um tíma í Danmörku m.a. sem herbergisþerna á Hótel d‘ Angletere og í matvælaverksmiðju OTA / TARTA. Á Danmerkur-árunum byrjaði Oddbjörg að skrifa, en afraksturinn var í skúffunni í allmörg ár.

Árið 2002, sendi Oddbjörg smásöguna HÆTTUR í samkeppni og kom sagan út í smásagnasafninu Hver með sínu nefi, sem Þyrnirós gaf út sama ár.

2008 settist Oddbjörg aftur á skólabekk í Háskóla Íslands. Þar kviknaði aftur þörfin fyrir að skrifa, sem hafði lengi legið í dvala. Hún sótti tvö námskeið í ritlist hjá Önnu Heiðu Pálsdóttur í skapandi skrifum og eitt námskeið hjá Stefáni Mána í glæpasagnaskrifum. Námskeiðin veittu henni allmikinn innblástur sem varð til þess að hún hélt áfram að skrifa og árið 2015 kom út hennar fyrsta skáldsaga; Eydís, í útgáfu Listfengi ehf. Sagan gerist 1983 og fjallar um unga konu á eitís-tímabilinu. Að einhverju leyti er verkið sögulega rétt því nokkrir atburðir sem nefndir eru í því áttu sér stað í raun og veru; til dæmis tónleikar með Grace Jones og mótmæli fyrir utan veðurstofuna vegna slæms veðurs þetta sumar. Persónur og leikendur eru hins vegar skáldskapur, sem og megnið af söguþræðinum.

Árið 2018 sendi Oddbjörg frá sér sakamálasöguna Hvunndagsmorð. Sú saga fjallar um ósköp venjulegt fólk, sem lifir hefðbundnu lífi í hvunndeginum, sem þó hættir að vera venjulegt, þegar það „lendir“ í að verða aðilar og jafnvel gerendur glæpa, umlukið lygavef.

Oddbjörg hefur þýtt úr íslensku yfir á dönsku bækurnar um Siggu og Skessuna og 16 barnabækur eftir Herdísi Egilsdóttur en þær bíða enn útgáfu.


Ritaskrá

  • 2023  Amma, hvert fara fuglarnir á nóttunni?
  • 2021  Hefndararfur
  • 2018  Hvunndagsmorð
  • 2015  Eydís
  • 2002  Smásagan HÆTTUR í smásagnasafninu „Hver með sínu nefi“