SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigríður Beinteinsdóttir

Sigríður Beinteinsdóttir fæddist 30. apríl árið 1912 í Grafardal í Hvalfjarðarstrandarhreppi (nú Hvalfjarðarsveit). Hún ólst upp með sjö systkinum og voru öll skáldhneigð. Sigríður fór ekki í skóla en fékk þess í stað barnafræðslu heima frá foreldrum og systkinum. Níu ára gömul er hún fyrst send í vist í Skorradal. Hún vann ýmis sveitastörf og í fiskvinnslu á yngri árum.

Árið 1937 giftist Sigríður Jóni Magnússyni, sem auk þess að vera bóndi gegndi starfi kennara, oddvita og hreppstjóra, og eignuðust þau þrjá syni. Þau hófu búskap 1937 á Brekku á Hvalfjarðarströnd en fluttu sig síðan um set og bjuggu til skamms tíma að Litla-Lambhaga og Draghálsi. Árið 1944 keyptu þau Hávarsstaði í Leirársveit og þar bjó Sigríður þar til hún flutti á Dvalarheimilið Höfða á Akranesi árið 2006 og lést þar tveimur árum síðar, 16. janúar 2008.

Sigríður sendi frá sér tvær ljóðabækur, Komið af fjöllum árið 1984 og Um fjöll og dali árið 1990. Einnig kom út bókin Raddir dalsins árið 1993 sem hefur að geyma ljóð eftir öll systkinin frá Grafardal en Jón Magnússon tók þau saman.


Ritaskrá

  • 1993 Raddir dalsins (ásamt systkinum sínum: Pétri, Halldóru, Einari, Björgu, Guðnýju, Ingibjörgu og Sveinbirni frá Grafardal.
  • 1990 Um fjöll og dali
  • 1984 Komið af fjöllum