SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Valdís Óskarsdóttir

Valdís Óskarsdóttir er fædd 6. maí 1949 á Akureyri.

Valdís útskrifaðist sem kvikmyndaklippari frá Den Danske Filmskole 1991 en tók auk þess námskeið í grafískri ljósmyndun í Uppsölum (1977), í leiklist við Uppsalaháskóla (1978), í handritagerð (1982) og í almennri kvikmyndagerð við Dramatiska Institutet Stokkhólmi 1984.

Valdís er þekktust fyrir klippingar sínar á kvikmyndum en hún hefur klippt jafnt íslenskar sem og erlendar myndir; til dæmis Stellu í Orlofi, Sódóma Reykjavík, Nóa Albínóa, Festen, Finding Forrester og Eternal Sunshine of the Spotless Mind en fyrir klippingu á þeirri síðast nefndu hlaut hún Bafta verðlaunin 2004. Þá skrifaði Valdís handritið að kvikmyndinni Sveitabrúðkaup (2008) sem hún leikstýrði einnig.

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar sendi Valdís frá sér fimm skáldsögur fyrir börn; Fýlupokarnir (1976), Litli loðnufiskurinn (1978), Búálfarnir (1979), Búálfarnir flytja (1982) og að lokum Elías (1983) sem hún skrifaði í samvinnu við Auði Haralds en sú bók byggði á innslögum sem þær stöllur skrifuðu fyrir Stundina okkar. Valdís skrifaði einnig samtalsbókina Börn eru líka fólk árið 1980 en þar er að finna tíu bráðskemmtileg viðtöl við krakka á aldrinum þriggja til tíu ára.

Um árabil starfaði Valdís við dagskrágerð hjá Ríkisútvarpinu. Á þeim tíma skrifaði hún meðal annars útvarpsleikritin Fiss og fuss (1981), Jón og Guðjón (1985) og Jónatan (1993). Auk þess samdi hún sögurnar og ævintýrin Næturferðalag Kalla (1979), Skápurinn hans Georgs frænda (1980) og Búálfarnir flytja (1982) sem flutt voru í barnatímum í útvarpinu.

Valdís hefur einnig þýtt bækur fyrir börn til að mynda Ottó nashyrning eftir Ole Lund Kirkegaard og Dósastrákinn eftir Christine Nöstlinger. Valdís vann lengi sem ljósmyndari á tímaritum og dagblöðum en myndir eftir hana hafa einnig prýtt ljóðabækur auk þess sem hún hefur haldið sýningar á ljósmyndum sínum bæði hérlendis og erlendis.

 


Ritaskrá

  • 2008  Sveitabrúðkaup (kvikmyndahandrit)
  • 1993  Jónatan (útvarpsleikrit)
  • 1985  Jón og Guðjón (útvarpsleikrit)
  • 1983  Elías (ásamt Auði Haralds)
  • 1982  Búálfarnir flytja
  • 1981  Fiss og fuss (útvarpsleikrit)
  • 1980  Börn eru líka fólk
  • 1979  Búálfarnir
  • 1978  Litli loðnufiskurinn
  • 1976  Fýlupokarnir